sun 22. apríl 2018 15:23
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Telur að Andri Rúnar geti skákað Alfreð og öðrum Íslendingum
Andri Rúnar Bjarnason hefur farið vel af stað í Svíþjóð.
Andri Rúnar Bjarnason hefur farið vel af stað í Svíþjóð.
Mynd: Heimasíða Helsingborg
Alfreð sló í gegn hjá Helsingborg.
Alfreð sló í gegn hjá Helsingborg.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Martin Klinteberg skrifar fallega hluti um framherjann Andra Rúnar Bjarnason á vefsíðunni Allomhif.se.

Þar fer hann yfir sögu Íslendinga hjá sænska félaginu Helsingborg sem er virkilega mikið Íslendingafélag.

Andri Rúnar er eini Íslendingurinn sem er á mála Helsingborg í dag en liðið er í sænsku B-deildinni. Helsingborg krækti í Andra eftir að hann jafnaði markametið í Pepsi-deild karla í fyrra með Grindavík.

Sögu Íslendinga hjá Helsingborg má rekja aftur til ársins 1983 þegar 25 ára gamall Albert Guðmundsson spilaði með liðinu. Síðan þá hafa níu Íslendingar leikið með félaginu að meðtöldum Andra.

Andri hefur farið vel af stað með Helsingborg. Hann leit vel út á undirbúningstímabilinu og skoraði svo þrennu í sínum öðrum deildarleik sem var gegn IFK Frej.

Í grein sinni segir Klinteberg að hann telji að Andri Rúnar hafi alla burði til þess að vera besti íslenski leikmaðurinn sem spilað hefur fyrir Helsingborg. Það er ansi gott hrós í ljósi þess að leikmenn eins og Alfreð Finnbogason og Ólafur Ingi Skúlason hafa spilað fyrir félagið. Alfreð skoraði 12 mörk í 17 leikjum fyrir Helsingborg.

Hver veit nema Andri verði fyrsti íslenski leikmaðurinn, samningsbundinn Helsingborg, til að spila á HM?

Íslendingar sem spilað hafa fyrir Helsingborg:
Arnór Smárason (miðjumaður) júlí 2013 - desember 2015

Alfreð Finnbogason (sóknarmaður) mars 2012 - ágúst 2012

Andri Runar Bjarnason (sóknarmaður)

Guðjón Pétur Lýðsson (miðjumaður) ágúst 2011- desember 2011.

Guðlaugur Victor Pálsson (miðjumaður) ágúst 2014 - ágúst 2015.

Ólafur Ingi Skúlason (miðjumaður) janúar 2007 - desember 2009.

Hilmar Björnsson (sóknarmaður) janúar 1998 - maí 2000.

Albert Guðmundsson (miðjumaður) janúar 1983 - desember 1983.

Jakob Jóharðsson (miðjumaður) febrúar 1998 - mars 2000.
Athugasemdir
banner
banner