sun 22. apríl 2018 16:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Wenger: Mér hefur verið hrósað miklu meira en ég á skilið
Mynd: Getty Images
Kveðjuleikjahrina Arsene Wenger hófst í dag með sigri á West Ham á Emirates-vellinum.

Wenger hættir sem stjóri Arsenal að tímabilinu loknu eftir að hafa verið stjórnvölinn í tæp 22 ár. Hann tilkynnti það í síðustu viku en hann segist hafa verið einbeittur á leikinn í dag.

„Ég var einbeittur á að vinna leikinn," sagði Wenger. „Við reyndum að gera þetta fagmannlega og vinna okkar vinnu þrátt fyrir að aðstæðurnar séu breyttar. Við sýndum góða liðsanda og náðum góðum undirbúningi fyrir fimmtudaginn."

Á fimmtudaginn mætir Arsenal liði Atletico Madrid í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópudeildarinnar.

„Þetta var þolinmæðisverk. Við gerðum engin stór mistök. Þetta er góður undirbúningur fyrir undanúrslitin í Evrópudeildinni, við skoruðum mörk gegn sterku liði West Ham sem hefur verið að spila vel í síðustu leikjum sínum."

Wenger hefur fengið margar fallegar kveðjur eftir að hann tilkynnti að hann væri að segja skilið við Arsenal.

„Ég vil þakka öllum sem hafa sýnt mér hlýju og hrósað mér miklu meira en ég á skilið. Ég vil þakka öllum. Þetta hefur verið frábær kafli í mínu lífi og ég er mjög þakklátur fyrir hann."

Wenger vildi ekkert tjá sig um það hvað tekur við hjá sér eftir Arsenal, að svo stöddu.
Athugasemdir
banner
banner
banner