Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 22. maí 2017 15:51
Magnús Már Einarsson
Olgeir: Tel að ég geti gefið enn þá meira af mér í þjálfun
Olgeir er leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi.  Hér er hann eftir að Blikar urðu Íslandsmeistarar 2010.
Olgeir er leikjahæsti leikmaður Breiðabliks frá upphafi. Hér er hann eftir að Blikar urðu Íslandsmeistarar 2010.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
„Þetta er frábært. Maður var ekkert að sækjast eftir þessu og ég sá þetta ekki koma. Þegar þetta býðst þá er erfitt að segja nei," sagði Olgeir Sigurgeirsson við Fótbolta.net í dag en hann er nýr aðstoðarþjálfari Breiðabliks.

Milos Milojevic var ráðinn þjálfari Breiðabliks í dag og Olgeir verður honum til aðstoðar. Olgeir er leikjahæstur í sögu Breiðabliks en hann hefur komið að þjálfun 2. flokks Breiðabliks á þessu tímabili.

„Ég er búinn að vera inni í klúbbnum síðan í vetur með 2. flokkinn og ég hef verið hæstánægður þar. Ég verð áfram með aðra löppina þar en það hefði verið hrikalega erfitt að segja nei við meistaraflokkinn."

Olgeir var einnig spilandi þjálfari Augnabliks í 4. deildinni en hann mun nú láta af störfum þar.

„Ég er kominn með nóg af því að spila fótbolta. Passionið fyrir fótbolta er ennþá til staðar og ég tel að ég geti gefið ennþá meira af mér í þjálfun heldur en þegar ég var spilandi. Þetta hefur alltaf blundað í mér og það er frábært að vera kominn á fullt í þetta," sagði Olgeir en hann er spenntur fyrir því að starfa með Milos.

„Allt sem hef ég hef heyrt um hann er hrikalega gott og þessi litlu kynni mín af honum hingað til eru frábær. Hann er mjög professional gaur, opinn og skemmtilegur. Ég hlakka til að vinna með honum. Ég held að það verði frábært."

Breiðablik náði í sinn fyrsta sigur í sumar gegn Víkingi R. í gær og Olgeir er bjartsýnn á framhaldið. „Ég væri ekki að fara í þetta ef ég hefði ekki trú á liðinu. Við vitum allir að Breiðablik er með hörkugott lið. Núna þarf að setja punkt fyrir aftan það sem búið er, byrja upp á nýtt og klifra upp töfluna. Ég hef fulla trú á að það takist." sagði Olgeir.
Athugasemdir
banner
banner
banner