Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 22. maí 2018 11:22
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Mirror 
Gæti Emery átt í vandræðum með agamál hjá Arsenal?
Unai Emery er að taka við Arsenal.
Unai Emery er að taka við Arsenal.
Mynd: Getty Images
Emery hefur gert góða hluti en er hann rétti maðurinn fyrir Arsenal?
Emery hefur gert góða hluti en er hann rétti maðurinn fyrir Arsenal?
Mynd: Getty Images
Allt bendir til þess að Unai Emery verði ráðinn stjóri Arsenal í vikunni en þessi áhugaverði þjálfari hefur náð að vinna sig örugglega upp stigann í Evrópuboltanum. Það eru þó efasemdir um að hann sé rétti maðurinn til að hífa Arsenal upp á þann stall þar sem liðið vill vera.

Íþróttafréttamaðurinn Richard Martin skrifar úttekt um Emery í Daily Mirror.

Baskinn fær verðskuldað lof fyrir starf sitt hjá Sevilla þar sem hann vann Evrópudeildina þrjú tímabil í röð og bjó til magnaðan liðsanda. Hann náði árangri þrátt fyrir að þurfa að endurnýja lið sitt á hverju ári þar sem hann missti öfluga menn.

Hann er ekki eins vinsæll hjá Valencia þrátt fyrir að hafa stýrt liðinu í þriðja sæti í La Liga þrjú ár í röð.

Þrátt fyrir að tveggja ára dvöl hans hjá Paris Saint-Germain skilaði fimm titlum þá skyggði á að honum mistókst að fá liðið til að taka næsta skref í Meistaradeildinni. Þá átti hann í erfiðleikum með að halda völdum í erfiðum klefa með stórum nöfnum, ekkert stærra en Neymar.

Emery fékk sitt fyrsta stóra starf þegar hann var ráðinn stjóri Valencia 2008 eftir að hafa náð áhugaverðum árangri með Deportivo Lorca og Almeria. Hann fór vel af stað á Mestalla, sérstaklega í ljósi þess að liðið missti stjörnuleikmenn á borð við David Villa, Juan Mata og David Silva.

Starf Emery var samt aldrei metið til fulls. Bilið upp í Real Madrid og Barcelona var enn gríðarlegt og þetta var á þeim tíma að liðið var fullt af spænskum landsliðsmönnum.

„Á fjórum árum hjá Valencia var erfitt að sjá hver leikstíll hans var nákvæmlega. Hann lagði mikla áherslu á sóknarleikinn en jafnvægið í liðinu var lítið. Margir stuðningsmenn voru ánægðari með fótboltann sem Ernesto Valverde, sem endaði í fimmta sæti, og Marcelino, sem kom liðinu í fjórða sæti, létu liðið leika frekar en Emery sem endaði þriðji," segir heimildarmaður Mirror.

Vera hans hjá Valencia litaðist af agavandamálum og leikmenn sáust úti á lífinu seint á kvöldin. Frægasta atvikið var þegar Emery gaf liðinu tveggja daga frí eftir 3-0 sigur gegn Rangers í Meistaradeildinni og bauð svo liðinu að fagna afmælinu sínu. Það sem átti að þétta liðinu saman snérist upp í andhverfu sína þegar stór hluti hópsins var að djamma til morguns. Sá sem fékk mesta gagnrýni í fjölmiðlum var Ever Banega sem kom 40 mínútum of seint á æfingu daginn eftir. Valencia tapaði næsta leik 2-0 gegn Sevilla.

Umræða um að hann sé ekki með fulla stjórn á leikmannahópi sínum kom aftur upp hjá PSG. Neymar bauð öllu liðinu í afmælisveislu tveimur dögum fyrir bikarleik. Emery mætti en fór þegar Neymar byrjaði að skera kökuna.

Í úttekt Mirror segir greinarhöfundur að fróðlegt verði að fylgjast með því hvernig Emery muni vinna með Pierre-Emerick Aubameyang sem var þekktur fyrir það hjá Borussa Dortmund að skella sér erlendis í djammferðir.

Eitt sem er mjög áberandi við þjálfunaraðferðir Emery er notkun á myndbandsgreiningu. Einhverjir leikmenn Valencia töluðu um að meiri tíma hafi verið varið í að horfa á skjái en úti á æfingasvæðinu. „Myndbönd, myndbönd, myndbönd" sagði Marco Verratti þegar hann var beðinn um að segja frá því hvernig var að spila undir stjórn þjálfarans.

Enginn efast um gæðin og dýptina í leikgreiningum Emery á mótherjum. En hann er ekki eins sannfærandi þegar kemur að því að gera breytingar sem skila sér í leikjum. Það þarf ekki annað en að horfa á 6-1 tap gegn Barcelona á síðasta tímabili eftir 4-0 sigurinn í fyrri leiknum. Eða hvernig þeir brugðust við gegn Real Madrid á þessu tímabili eftir að hafa tekið forystuna.

Það eru nánast engar neikvæðar raddir frá Sevilla, þar sem hann náði mesta stigafjölda félagssins frá upphafi 2015 og skilaði þremur Evróputitlum í röð í hús. Samband hans við leikmenn var gott og valdið á klefanum líka. Leikmenn höfðu trú á hans hugmyndafræði til að ná úrslitum.

Emery heldur góðu sambandi við menn sem hann vann með í upphafi ferilsins. Hann er ekki þekktur fyrir að vera til vandræða fyrir vinnuveitendur sína og vinn einbeita sér að því að vinna með leikmenn. Hann mun taka við þessu starfi af ástríðu og skoða allt í smáatriðum eins og Arsene Wenger. En það eru þó ákveðnir þættir sem menn efast um og þar á meðal ósannfærandi árangur hans gegn allra bestu liðunum. Það gæti hamlað honum í að koma Arsenal aftur að háborðinu þar sem liðið sat einu sinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner