þri 22. maí 2018 13:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Guðni Th. fékk heimsókn frá Jamie Carragher
Búinn að hitta Cantona og Carragher
Guðni Th. Jóhannesson.
Guðni Th. Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool, var á landinu um helgina þar sem hann var gestur á árshátíð Liverpoolklúbbsins. Þetta var í fyrsta sinn sem Carragher kemur til landsins.

Carragher, sem lék allan sinn feril fyrir Liverpool, ræddi við Daníel Geir Moritz fyrir Fótbolta.net á föstudaginn. Þar fór hann um víðan völl.

Carragher hafði í nógu að snúast um helgina en hann kíkti meðal annars á Bessastaði og hitti forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson. Carragher kom færandi hendi ásamt forystumönnum Liverpoolklúbbsins.

„Um helgina kom Jamie Carragher, hetja þeirra Liverpool-manna í enska boltanum, á Bessastaði og tók þátt í lofsverðum viðburði: Forystusveit Liverpoolklúbbsins á Íslandi afhenti Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna, hálfa milljón króna í styrk sem klúbbfélagar höfðu lagt til," segir á Facebook-síðu forsetans.

Guðni búinn að hitta tvær goðsagnir úr enska boltanum
Guðni hefur núna hitt Carragher og Eric Cantona, fyrrum leikmann Manchester United sem kom hingað til lands í tengslum við sjónvarpsþætti sem hann var að gera fyrir Eurosport.

„Gleðilegt var að geta lagt þessu góða framtaki lið – og ekki verra að spjalla um leið við merkan knattspyrnukappa. Fyrr á þessu ári hitti ég aðra goðsögn úr enska boltanum, Eric Cantona. Þeir Cantona og Carragher eru afar ljúfir í viðkynningu, jarðbundnir og alls ekki með neina stjörnustæla. Báðir gátu þó verið harðir í horn að taka og lögðu allt í sölurnar fyrir sitt lið. Í því fólst styrkur þeirra. Um leið sýna dæmin að þeir voru og eru reiðubúnir að læra af mistökum sínum. Þannig eru bestu íþróttamennirnir – og eflaust á sú speki líka við um aðra."


Athugasemdir
banner
banner