þri 22. maí 2018 20:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kane á þeirri skoðun að England geti unnið HM í sumar
Kane er fyrirliði enska landsliðsins.
Kane er fyrirliði enska landsliðsins.
Mynd: Getty Images
Harry Kane, framherji Tottenham, verður fyrirliði enska landsliðsins á HM í sumar. Wayne Rooney var fyrirliði á EM í Frakklandi en hann er hættur að spila með enska landsliðinu.

Hinn 24 ára gamli Kane hefur skorað tólf mörk í 23 landsleikjum fyrir England á ferlinum.

Kane sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag eftir að hafa verið útnefndur landsliðsfyrirliði.

„Það er ómögulegt að láta sig ekki dreyma um að lyfta Heimsmeistarabikarnum. Þetta er stærsta keppni sem til er," sagði Kane á blaðamannafundinum. Hann telur að England geti orðið Heimsmeistari í sumar.

„Ég hef trú á því að við getum unnið HM, öll liðin eiga möguleika. Ég get ekki setið hér og sagt að við munum ekki vinna, vegna þess að við getum unnið."

„Þannig er mitt hugarfar, ég vil vinna í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Leikmennirnir í liðinu hugsa eins."

„Við erum kannski ekki sigurstranlegasta liðið en ef þú lítur bara á þetta tímabil, þá hefði enginn hugsað sér að Liverpool kæmist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Þú lítur til Manchester United þegar Sir Alex Ferguson stýrði liðinu, það var ungt lið sem átti eftir að vinna ensku úrvalsdeildina oft og mörgum sinnum."

„Að vera með ungt lið er ekki afsökun, það getur verið gott. Ég hef trú á því að við getum unnið og við ætlum að reyna það. Allt annað er ekki nægilega gott," sagði Kane.

England er í riðli með Túnis, Panama og Belgíu á HM í sumar. England varð síðast Heimsmeistari árið 1966, en síðustu stórmót hafa endað í miklum vonbrigðum þar á meðal EM 2016 þar sem liðið féll liðið úr leik gegn Íslandi í 16-liða úrslitum.

Stefnt er að betri árangri undir stjórn Gareth Southgate í sumar.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner