fim 22. júní 2017 10:00
Mist Rúnarsdóttir
Inga Rakel: Æfum stíft, tvisvar í viku
Við skoðum stemmninguna hjá Hömrunum í dag
Við skoðum stemmninguna hjá Hömrunum í dag
Mynd: Aðsend
Inga Rakel segir okkur frá stemmningunni hjá Hömrunum
Inga Rakel segir okkur frá stemmningunni hjá Hömrunum
Mynd: Aðsend
Leikmenn hafa tekið gríðarlegum framförum í strandblaki
Leikmenn hafa tekið gríðarlegum framförum í strandblaki
Mynd: Aðsend
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við höldum áfram að fylgjast með félögunum í 1. og 2. deild kvenna í gegnum liðinn „Hvað er að frétta?"

Í dag er komið að því að heimsækja Hamrana á Akureyri en Inga Rakel Ísaksdóttir sá um að svara nokkrum spurningum um liðið og leyfa lesendum Fótbolta.net að fylgjast með.

Hamrarnir eru um miðja 1. deild með 8 stig eftir 6 leiki. Næsti leikur þeirra verður spilaður næstkomandi mánudag þegar þær taka á móti toppliði HK/Víkings.

Hamrarnir:
Erkifjendur: Eigum enga sérstaka erkifjendur en það er alltaf gaman að vinna Tindastól
Heimavöllur: Boginn
Fyrirliði: Helena Jónsdóttir
Þjálfari: Karen Nóadóttir


Hvernig er stemningin hjá Hömrunum?
Stemmingin er hrikalega góð hjá okkur þessa dagana og bara yfir höfuð í kringum kvennaboltann á Akureyri. Gengi liðanna skemmir ekki fyrir en eftir að hafa nælt í silfur í Lengjubikarnum þá komum við eldsprækar inn í þetta mót.

Hvernig er liðið byggt upp?
Við erum með samheldinn hóp sem inniheldur fjölbreytta og skemmtilega blöndu af leikmönnum á öllum aldri. Liðið er aðallega byggt á Akureyringum þó að inn á milli leynist nokkrar úr sveitunum í kring. Við höfum allt fá ungum og eldsnöggum leikmönnum til eldri reynslubolta sem hreyfa sig ekki meira en þarf.

Eru miklar breytingar á hópnum frá því í fyrra?
Já það eru töluvert miklar breytingar, kjarninn hefur haldist svipaður en svo höfum við fengið mikið af nýjum leikmönnum sem smellpassa inn í hópinn. Stærstur hluti þeirra kemur úr 2.flokki hjá Þór/KA, ungar og ósjálfbjarga en efnilegar stelpur.

Hvert er markmið sumarsins hjá ykkur?
Við settum okkur svipuð markmið og KA fyrir nokkrum árum #pepsi16 – sem breyttist síðan í #pepsi17 og er að sjálfsögðu #pepsi18 í ár. Annars verður stærsta og mest krefjandi verkefni sumarsins að kenna kjúllunum á klukku, þær hafa styrkt sektarsjóðinn vel síðasta mánuðinn.

Að öllu gríni slepptu þá ætlum við að sýna það í sumar að við eigum heima í þessara deild og erum ekki bara í þessu til að vera með.

Ertu ánægð með hvernig deildin fer af stað fyrir Hamrana?
Já ég held að við getum verið nokkuð sáttar með 8 stig úr fyrstu fimm leikjunum, sérstaklega í ljósi þess hvað við æfum stíft, tvisvar í viku. Þó það séu auðvitað einhverjir leikir sem hefur verið svekkjandi að taka ekki fleiri stig út úr þá höfum við farið nokkuð vel af stað en við erum enn að læra inn á hvor aðra og eigum ennþá helling inni.

Við komum vel undan vetri og þá sérstaklega í strandblakinu þar sem leikmenn hafa verið að sýna gífurlegar framfarir eftir arfaslaka frammistöðu síðustu ár.

Hvaða lið telurðu að verði í mestu baráttunni um að fara upp í Pepsi-deild?
HK/Víkingur hefur verið með sterkt lið síðustu ár, hafa farið vel af stað og ég held að það þurfi mikið að klikka til að þær fari ekki upp eftir sumarið. Annars held ég að það verði barátta milli ÍA og Keflavíkur um laust sæti í Pepsi-deildinni.

Hvað hefur komið þér mest á óvart í upphafi móts?
Þrátt fyrir að tímabilið sé rétt að byrja þá kemur á óvart hvað deildin er jöfn og stefnir allt í spennandi sumar. Eins kemur það mér skemmtilega á óvart hvað Björk er búin að vinna mörg skallaeinvígi það sem af er sumri.

Komdu með eina skemmtilega staðreynd um félagið sem fólk veit ekki um:
Aldursforsetarnir í liðinu stofnuðu kvennalið Hamranna í fótbolta fyrir 4 árum og liðið hefur alfarið verið rekið af leikmönnum síðan þá.
Athugasemdir
banner
banner
banner