Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 22. júní 2017 12:00
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Jajalo: Ákvað að gerast markvörður eftir að faðir minn lést
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Benóný Þórhallsson
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Grindavík datt í lukkupottinn um mitt tímabil í fyrra þegar markvörðurinn Kristijan Jajalo kom til félagsins. Jajalo er frá Bosníu/Hersegóvínu en samningur hans við Zrinjski Mostar í heimalandinu rann út fyrir ári síðan.

Jajalo ákvað að semja við Grindavík í kjölfarið og í fyrra hjálpaði hann liðinu upp úr Inkasso-deildinni. Í ár hefur Jajalo síðan farið á kostum í marki Grindavíkur í Pepsi-deildinni.

„Faðir minn var markvörður og ég er stoltur af því að vera með DNA frá honum. Hann var ekki atvinnumaður en það er honum að þakka að ég er markvörður því að hann hvatti mig til að spila fótbolta og verða markvörður," sagði Jajalo í viðtali við Fótbolta.net.

„Í byrjun hafði ég ekki áhuga á fótbolta en með hverri æfingu sem leið þá jókst áhugi minn á fótbolta og þú sérð hvar ég er núna."

Þegar Jajalo var 11 ára gamall lést faðir hans, 38 ára að aldri.

„Þegar faðir minn lést þá ákvað ég að það eina sem ég vildi gera væri að verða markvörður. Fjölskylda mín hefur sýnt mér stuðning allan ferilinn og ég vil þakka þeim fyrir það."

Hefur ekkert á móti Tómasi Þór
Í útvarpsþætti Fótbolti.net á dögunum greindu leikmenn Grindavíkur frá því að inni í klefa sé mynd uppi á vegg með ummælum sem Tómas Þór Þórðarson lét falla fyrir tímabilið en þar spáði hann Grindavík falli. Við ummælin er Jajalo síðan búinn að skrifa „fuck you Tómas."

„Ég skrifaði þetta en það er engin merking á bakvið það. Þetta var smá grín fyrir okkur til að peppa okkur áfram. Við erum ennþá með þetta á veggnum í klefanum eins og allar aðrar spár," sagði Jajalo og hló.

„Svo það komi skýrt fram þá hef ég ekkert á móti Tómasi. Hann er góður íþróttafréttamaður og hann sinnir starfi sínu mjög vel. Ég vona að hann sé ekki reiður. Ef hann er það þá biðst ég afsökunar," sagði Jajalo og brosti.

Grindvíkingar hafa blásið á allar hrakspár en þetta góða gengi kemur Jajalo ekki á óvart.

„Ég er ekki hissa á því hvernig við höfum spilað og hvar við erum í deildinni núna. Við höfum lagt hart að okkur í vetur og við undirbjuggum okkur vel. Við spiluðum góða leiki í Lengjubikarnum og frammistaðan þar sýndu okkur hversu góðir við erum. Við fengum trú á að við gætum staðið okkur vel í Pepsi-deildinni."

Vill sjá Andra Rúnar í íslenska landsliðinu
Grindavík er í 2. sæti Pepsi-deildarinnar en getur liðið orðið Íslandsmeistari? „Ég veit það ekki. Okkar fyrsta markmið er að ná 22 stigum og vera áfram í deildinni. Eftir það getum við rætt um næstu markmið og það verður á milli okkar í búningsklefanum. Við erum alltaf að hugsa um einn leik í einu og við sjáum hvar endum í lokin," sagði Jajalo sem hefur sjálfur leikið mjög vel í sumar og verið þrívegis í liði umferðarinnar á Fótbolta.net.

„Það er of snemmt að segja hvort þetta sé besta tímabil mitt hingað til. Ég vona að það verði það samt. Ég er nokkuð ánægður með frammistöðuna hingað til en ég og markmannsþjálfarinn (Þorsteinn Magnússon) vitum að ég get gert ennþá betur. Það er mikilvægt að hafa fullan stuðning frá þjálfurunum og liðsfélögunum og sérstaklega vini mínum Maciej Maja Majewski. "

Andri Rúnar Bjarnason hefur fengið mesta sviðsljósið í liði Grindavíkur en hann er markahæstur í deildinni með níu mörk. Jajalo telur að Andri hafi burði til að komast í íslenska landsliðið.

„Já ég tel það. Hann er markahæstur í Pepsi. Andri er mjög góður leikmaður sem getur skorað alls konar mörk. Hann er alhliða framherji. Hann er stór, sterkur og með góða tækni. Hann er fullkominn fyrir leikstíl landsliðsins," sagði Jajalo.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner