Risaverðmiði á Isak sem er á óskalista Chelsea - Bayern ætlar að reyna við Onana - Áhugi frá Sádi-Arabíu á Garnacho
   lau 22. júní 2024 13:52
Ívan Guðjón Baldursson
Heimir: Þetta verður eins og heimaleikur fyrir Mexíkó
Mynd: Getty Images
Heimir Hallgrímsson svaraði spurningum fyrir fyrsta leik Jamaíka á Copa América, sem er haldið í Bandaríkjunum í ár.

Jamaíka spilar þar við Mexíkó og býst Heimir við afar erfiðum leik fyrir framan mexíkóska áhorfendur.

Leikurinn fer fram í Houston, Texas, og er uppselt á 72 þúsund manna leikvangi þar sem má búast við að stór meirihluti áhorfenda klæðist grænni landsliðstreyju Mexíkó.

„Ég er smá smeykur við að mæta Mexíkó á uppseldum 72 þúsund manna leikvangi, þetta verður eins og heimaleikur fyrir þá. Vonandi tekst okkur að þagga niður í þeim og vonandi munum við heyra í einhverjum stuðningi frá þeim Jamaíkubúum sem verða í stúkunni," sagði Heimir. „Ég veit að þeir munu gera sitt besta þó að þeir verði í miklum minnihluta."

Heimir er mjög ánægður að Jamaíka fái tækifæri að taka þátt í Copa América og er spenntur fyrir mótinu.

„Þetta verður risastórt mót, mögulega það stærsta í sögu keppninnar. Þetta gæti verið næststærsta mót í heimi eftir HM. Ég veit að EM fer fram á sama tíma en ég held að Copa América sé stærri keppni, ég held að fleira fólk horfi á Copa América eða í það minnsta ekki færra fólk heldur en horfir á EM á þessu ári."

Jamaíka er í riðli með Ekvador og Venesúela, auk Mexíkó, og spila öll lið riðilsins leiki sína í kvöld og í nótt. Ekvador spilar við Venesúela klukkan 22:00 í kvöld og svo eigast Jamaíka og Mexíkó við klukkan 01:00 á íslenskum tíma.

„Við höfum haft fimm æfingar saman hérna í Houston og þær hafa verið mjög góðar. Við erum tilbúnir í næstu leiki, við erum búnir að undirbúa allt það helsta fyrir þetta mót þar sem við munum ekki hafa tíma til þess eftir að leikar hefjast. Þá verður einbeitingin á því að ná líkamlegum bata fyrir næsta leik hverju sinni."
Athugasemdir
banner
banner
banner