Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 22. júlí 2016 16:15
Fótbolti.net
Söfnun fyrir lögreglumann sem var ráðist á eftir leik Íslands
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenskir stuðningsmenn hafa sýnt mikinn áhuga á því að hefja söfnun fyrir enska lögreglumanninn Adam sem varð fyrir árás í París eftir leik Frakklands og Íslands. Tekið hefur verið gríðarlega vel í að bjóða honum, ásamt kærustu hans Catherine til Íslands á leikina gegn Finnlandi og Tyrkland í undankeppni HM.

Yfirlýsing frá Tólfunni
Adam og Catherine starfa sem lögregluþjónar í London og hrifust af íslenska landsliðinu, stuðningsmönnum og stemmninguni á leikjum Íslands á Evrópumótinu. Þau tóku lest til Parísar frá London til þess að fara á leik Frakklands og Íslands og taka þátt í stemmningunni.

Eftir leikinn fóru þau á pöbb við lestarstöðina Gare du Nord en þar varð Adam fyrir tilefnislausri árás skv. yfirmanni þeirra. Árásarmaðurinn stakk Adam tvisvar og í kjölfarið fór Adam í langa og erfiða aðgerð og er hann enn að jafna sig. Hann fór heim miðvikudaginn 13. Júlí, tíu dögum eftir aðgerðina, og er í endurhæfingu í London og ætlar sér að vera kominn í gott form þegar kemur að ferðinni til Íslands.

Þessi hugmynd hefur fengið mikinn meðbyr og er ánægjulegt að geta gert eitthvað jákvætt fyrir mann sem varð fyrir svo fólskulegri árás. Stjórn Tólfunnar hefur samþykkt að aðstoða við söfnunina og við að gera upplifun þeirra á Íslandi sem eftirminnilegasta.

Fyrirtæki hafa útvegað flugmiða báðar leiðir, gistingu, þyrluflug, dagsferðir til að skoða náttúru Íslands, leiksýningu, kvöldmat, landsliðs og tólfu búninga og skutl frá flugvelli og upp á hótel. Við viljum þó safna einhverri fjárhæð fyrir þau þannig að ferðin verði þeim alveg að kostnaðarlausu.

Adam og Catherine munu gefa helmingin af þeirri fjárhæð sem safnast til íslenskra góðgerðarmála; fjórðung til Barnaspítala Hringsins og fjórðung til Landsbjargar. Þau hafa sagt að þau muni aldrei geta þakkað okkur nógu mikið fyrir góðmennsku okkar eftir þessa erfiðu reynslu og vilja því sýna þakklæti sitt með þessu móti.

Þau munu mæta með Tólfunni á leikdag til að hita upp fyrir leikina og kynnast stuðningsmönnum Íslands betur, taka þátt í gleðinni og vonandi sjá okkur taka 6 stig úr leikjunum. Adam langar líka til þess að þakka fyrir sig í hálfleik ef það verður mögulegt.

Markmið söfnuninnar er ekki að safna miklum fjármunum. Mjög margir vilja taka þátt í að bjóða þeim hingað en með söfnuninni geta stuðningsmenn tekið þátt í þessu fallega verkefni. Vonandi verður sameiginlegt átak okkar þess valdandi að ferð þeirra verður ógleymanleg.

Reikningsnúmer 515-14-411483
Kennitala: 5211130650

Fyrir þá sem vilja taka þátt með öðrum hætti en með því að styrkja með peningum er ykkur velkomið að hafa samband á facebook eða senda póst á:

Kristinn Hall Jónsson, [email protected]
Hannes Frey Sigurðsson: [email protected]

Við þökkum ykkur kærlega fyrir stuðningin, Áfram Ísland!!!
Athugasemdir
banner
banner