lau 23. ágúst 2014 08:30
Magnús Már Einarsson
Ert þú besta vítaskytta landsins?
Styrktu gott málefni
Mynd: Fótbolti.net
Í dag mun Fótbolti.net standa fyrir veglegri vítaspyrnukeppni á grasinu hjá Háskóla Íslands og um leið gefst fólki kostur á að styðja gott málefni.

Þátttökugjald er 1000 krónur en allur ágóði rennur Umhyggju, félags til stuðnings langveikum börnum.

Vegleg verðlaun eru í boði fyrir sigurvegarann í keppninni en meðal annars gefur adidas skó að andvirði 50 þúsund krónur auk þess sem fleiri verðlaun verða í boði. Þá verða boltar frá adidas notaðir í keppninni en þrír efstu keppendurnir fá að eiga bolta eftir keppnina.

Markverðir úr Pepsi-deildinni munu standa á milli stanganna og þegar styttist í að úrslitin fari að ráðast mun sjálfur landsliðsmarkvörðurinn Gunnleifur Gunnleifsson fara í markið.

Keppt er þar til að einn sigurvegari stendur eftir og hann verður vítaskytta Íslands árið 2014!

Keppni hefst klukkan 12:00 en skráning verður á staðnum og hefst hún klukkan 11:30. Ekkert aldurstakmark er í keppninni sem er opin öllum.

Hægt er að kaupa sig aftur inn í keppnina í þriðju umferð en þá kostar 3000 krónur. Þá er hægt að kaupa sig aftur inn í 5. umferð á 5000 krónur. Allur peningurinn rennur til Umhyggju.

Taktu þátt í skemmtilegri keppni og styrktu gott málefni um leið!

Keppt verður á þrjú mörk til að byrja með til að keppnin gangi hraðar. Þegar nær dregur úrslitum verður síðan keppt á eitt mark.

Nánari upplýsingar gefur Sveinbjörn Jónasson í síma 8479239.

Viðburðurinn á Facebook
Athugasemdir
banner
banner
banner