Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   fös 22. ágúst 2014 12:58
Magnús Már Einarsson
Formaður Víkings: Nefndin ætti að endurskoða vinnureglur
Jónas Gestur Jónasson.
Jónas Gestur Jónasson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eyþór Helgi Birgisson.
Eyþór Helgi Birgisson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Við fögnum þessari niðurstöðu. Það var gengið að öllum okkar kröfum í áfrýjuninni," segir Jónas Gestur Jónasson formaður knattspyrnudeildar Víkings í Ólafsvík.

Áfrýjunarnefnd KSÍ hefur stytt fimm leikja bann sem Eyþór Helgi Birgisson var dæmdur í eftir leik gegn Grindavík fyrr í mánuðinum. Þá þarf Víkingur Ólafsvík ekki að greiða 100 þúsund krónur í sekt.

Fram kemur í skýrslu dómarans að Eyþór hafi sagt aðstoðardómaranum „að drulla sér aftur til Rússlands" og var Eyþór dæmdur í fimm leikja bann samkvæmt 16. grein í reglugerð KSÍ sem fjallar um mismunun og kynþáttafordóma.

Í skýrslu áfrýjunarnefndar kemur fram að ekkert liggi fyrir um að viðbrögð Eyþórs hafi verið ofsafengin og ekki hafi verið fallist á það að Eyþór hafi gerst brotlegur við 16. greinina þó orðfæri hans hafi ekki verið til sóma.

,,Við vorum mjög hissa þegar úrskurðurinn var birtur fyrst," segir Jónas um úrskurð aga og úrskurðarnefndar fyrr í mánuðinum.

,,Við vissum ekki hvaða orðaskipti höfðu átt sér stað og vorum mjög hissa á að það var dæmt eftir 16. greininni. Það kom síðan í ljós að áfrýjunarnefndin telur að það hafi ekki átt að dæma samkvæmt þeirri grein. Aga- og úrskurðarnefnd hlýtur að endurskoða sínar vinnureglur í kjölfarið á þessu."

,,Menn hljóta að setja ramma utan um það hvað 16. greinin á að taka til í framtíðinni. Það hlýtur að fara af stað vinna í kringum það núna í framhaldinu. Það þarf að skilgreina þetta betur," sagði Jónas sem hefur haft í nægu að snuast undanfarnar vikur.

,,Þetta er búin að vera töluverð vinna síðan þetta gerðist. Við settum mikla vinnu í gang að rannsaka þetta á okkar heimaslóðum. Við töluðum við fjöldan allan af áhorfendum til að komast að því hvað hefði gerst. Þetta hefur verið mikil vinna hjá knattspyrnudeildinni en sem betur fer er þetta búið og við getum einbeitt okkur að fótboltanum en ekki þessum málum."

Eyþór Helgi er búinn að taka út tvo leiki í leikbanni og því tók hann í raun út aukaleikbann í leiknum gegn HK í vikunni þar sem bannið endaði á að vera einungis einn leikur.

,,Hann tók út einn leik sem hann átti ekki að taka út en það er best fyrir alla aðila að við unnum þann leik. Við gerum ekkert frekar í því. Við hefðum ekki verið sáttir ef við hefðum tapað en fyrst þetta fór svona þá heldur lífið bara áfram og við einbeitum okkur að Tindastóls leiknum á morgun."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner