Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 22. september 2014 06:00
Hafliði Breiðfjörð
KSÍ og N1 finna framtíðarleikmenn landsliðsins
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ og Halldór Harðarson framkvæmdastjóri markaðssviðs N1 ásamt stúlkum af landinu öllu sem hafa verið í hæfileikamótun hjá þjálfurum KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ og Halldór Harðarson framkvæmdastjóri markaðssviðs N1 ásamt stúlkum af landinu öllu sem hafa verið í hæfileikamótun hjá þjálfurum KSÍ.
Mynd: Aðsend
KSÍ og N1 skrifuðu undir samning um hæfileikamótun ungs knattspyrnufólks í fyrradag laugardag í Kórnum í Kópavogi.

Hæfileikamótunin er verkefni sem N1 og KSÍ standa að og er ætlað yngri iðkendum knattspyrnu af báðum kynjum til að auka áhuga á íþróttinni og einnig til að efla grasrótarstarf í knattspyrnu um land allt.

„Það er okkur í knattspyrnuhreyfingunni mikið ánægjuefni að fá jafn öflugan bakhjarl og N1 til liðs við okkur til að sinna þessu mikilvæga verkefni sem hæfileikamótunin er. Efling grasrótarinnar er algjört lykilatriði í því frábæra uppbyggingarstarfi sem unnið er í aðildarfélögum KSÍ og þeir efnilegu leikmenn sem taka þátt í hæfileikamótun KSÍ og N1 munu njóta góðs af verkefninu," segir Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.

Verkefnið felur í sér að fótboltalið um allt land fá heimsóknir frá þjálfurum KSÍ. Þjálfararnir munu meta getu leikmanna á aldrinum þrettán til fjórtán ára í þeirri von að finna framtíðarleikmenn landsliðsins. Tilgangur hæfileikamótunar N1 og KSÍ er einnig að fylgjast betur með efnilegum leikmönnum um allt land.

„Starfsemi N1 teygir sig um allt land og höfum við reynt að leggja okkar að mörkum í uppbyggingu ungmenna- og íþróttastarfs í byggðum landsins. Það er því okkur mikið ánægjuefni að koma að hæfileikamótun með KSÍ með það að markmiði að finna landsliðsmenn og -konur framtíðarinnar," segir Halldór Harðarsson, framkvæmdastjóri markaðssviðs hjá N1.
Athugasemdir
banner
banner
banner