fös 22. september 2017 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Tyrone Mings fékk að heyra það frá Mourinho
Zlatan og Mings áttu í harðri baráttu.
Zlatan og Mings áttu í harðri baráttu.
Mynd: Getty Images
Zlatan Ibrahimovic og Tyrone Mings áttu í harðri baráttu þegar Manchester United og Bournemouth áttust við á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni á síðasta leiktímabili.

Mings fékk fimm leikja bann fyrir að traðka á höfði Zlatan í leiknum, en Zlatan fékk líka bann, þriggja leikja, eftir að hafa gefið Mings olnbogaskot í sama leik. Zlatan náði ekki að hemja skap sitt eftir að Mings hafði traðkað á honum og því hefndi hann sín.

Það var hins vegar Mings sem fékk verri útreið á samfélagsmiðlum.

Hann var sakaður um að hafa traðkað viljandi á Zlatan, en hann hefur alltaf neitað því.

Það var ekki nóg með það að Mings hafi fengið slæma útreið á samfélagsmiðlum því Jose Mourinho, stjóri Manchester United, lét hann líka heyra það.

„Ég gerði mér ekki grein fyrir því hvað þetta væri stórt mál fyrr en í hálfleik. Þetta var ekki viljaverk og ég bjóst ekki við því að það yrði talað um þetta," segir Mings við Guardian.

„Ég fattaði það hversu stórt þetta var þegar Jose Mourinho kom til mín áður en seinni hálfleikurinn byrjaði og hraunaði yfir mig. Hann spurði mig hvort ég héldi að ég væri klókur og hann sagði við mig að ég myndi fá átta leikja bann," útskýrði Mings.
Athugasemdir
banner
banner