lau 22. nóvember 2014 12:45
Arnar Geir Halldórsson
Rodgers: Titillinn tapaðist ekki á Selhurst Park
Brendan Rodgers
Brendan Rodgers
Mynd: Getty Images
Liverpool fer í heimsókn til Crystal Palace á morgun en liðið á ekki góðar minningar frá Selhurst Park frá síðustu leiktíð en þá gerðu liðin 3-3 jafntefli í ótrúlegum leik.

Brendan Rodgers, stjóri Liverpool, segir að það muni ekki hafa áhrif á lið sitt í leiknum á morgun.

,,Við fórum kannski aðeins fram úr okkur í síðasta leik gegn Palace, við reyndum um of að bæta markatöluna okkar. En það var tapið gegn Chelsea sem fór með titilvonirnar." sagði Rodgers.

Hann reiknar með erfiðum leik en segir liðsmenn sína staðráðna í að snúa við gengi liðsins og komast á sigurbraut.

,,Þetta verður erfiður leikur. Neil Warnock er frábær stjóri með mikla reynslu. En við ætlum okkur sigur. Lykilatriðið hjá okkur hefur verið þetta magnaða andrúmsloft sem við höfum skapað á síðustu árum. Leikmennirnir leggja sig alla fram."

Daniel Sturridge meiddist í vikunni og þá á Mario Balotelli enn eftir að skora deildarmark fyrir liðið. Lítið hefur hinsvegar borið á Rickie Lambert hingað til en Rodgers segir að hann muni fá tækifæri.

,,Það hefur verið mikið talað um leikmenn sem eru meiddir og leikmenn sem eru farnir (Luis Suarez). Ég verð að einbeita mér að þeim leikmönnum sem eru heilir og Rickie mun fá tækifæri, við eigum marga leiki framundan og hann mun spila stórt hlutverk." sagði Norður-Írinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner