mið 22. nóvember 2017 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hættur með Ástralíu sex dögum eftir að HM sætið var tryggt
Ange Postecoglou og Mile Jedinak.
Ange Postecoglou og Mile Jedinak.
Mynd: Getty Images
Ange Postecoglou mun ekki stýra Ástralíu á HM á næsta ári þrátt fyrir að hafa séð um að koma liðinu þangað. Hann sagði starfi sínu lausu í gær, sex dögum eftir að HM sæti var tryggt.

Vangaveltur hafa verið um framtíð hins 52 ára gamla Postecoglou undanfarnar vikur.

Hann var gagnrýndur fyrir það að koma ekki Áströlum beint á HM í gegnum undankeppnina. Ástralir þurftu að fara í gegnum umspil þar sem lið Hondúras var sigrað.

„Eftir að hafa hugsað mikið, þá hef ég ákveðið að ferðalagi mínu sem þjálfari Ástralíu sé nú lokið. Eins og ég hef margoft sagt hafa þetta verið stærstu forréttindi lífs míns," sagði Postecoglou þegar hann sagði starfi sínu lausu í gær.

Postecoglou, sem er 52 ára gamall Grikki, var boðinn nýr samningur hjá knattspyrnusambandi Ástralíu, en það var hans ákvörðun að hætta í starfinu á þessum tímapunkti.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun að taka."

Guus Hiddink stýrði Ástralíu á HM 2006 og kom liðinu þá í 16-liða úrslit. Hann hefur verið orðaður við starfið í fjölmiðlum og þykir besti kosturinn. Annað spennandi nafn sem hefur verið nefnt, Carlo Ancelotti, en ekki er vitað hvort hann hafi áhuga fyrir starfinu.

Ástralir ætla að taka sér tíma í ráðningu á nýjum þjálfara.
Athugasemdir
banner
banner
banner