mið 22. nóvember 2017 15:33
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kristinn Steindórs gæti hugsað sér að snúa heim: Skoða allt
Kristinn Steindórsson.
Kristinn Steindórsson.
Mynd: Heimasíða Sundsvall
Kristinn í leik með Sundsvall.
Kristinn í leik með Sundsvall.
Mynd: Getty Images
Kristinn lék með Blikum áður en hann fór erlendis. Hér er hann í leik gegn FH.
Kristinn lék með Blikum áður en hann fór erlendis. Hér er hann í leik gegn FH.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
„Ég er bara nýkominn heim," sagði Kristinn Steindórsson þegar fréttamaður Fótbolta.net heyrði í honum núna síðdegis.

Kristinn var að klára sitt annað tímabil með GIF Sundsvall, en hann hefur verið í atvinnumennskunni núna frá 2012. Fyrst lék hann með Halmstad í nokkur ár áður en hann lét reyna á ævintýraþrána og spilaði í MLS-deildinni með Columbus Crew. Hann hefur svo undanfarin tvö tímabil leikið með Sundsvall.

En hvar verður hann á næsta tímabili?

„Ég er með samning við Sundsvall út næsta tímabil," segir hann. „Ég veit ekki um neitt annað eins og er, ég mun skoða málin eins og maður gerir eftir hvert tímabil."

„Eins og staðan er núna veit ég ekki neitt annað (en hann verði áfram í Sundsvall). Við kláruðum tímabilið og svo fær maður frí. Ég á eftir að setjast niður með þeim og ræða málin, maður veit aldrei hvað gerist. Ég veit ekki hvað þeir eru að hugsa."

Gæti hugsað sér að snúa aftur heim
Kristinn hefur nokkuð verið orðaður við heimkomu, þá meðal annars við FH og Blika. Er það eitthvað sem hann telur spennandi, þ.e.a.s. að koma heim og spila fótbolta hér á landi?

„Já, maður myndi skoða allt," segir Kristinn um möguleikann á að snúa aftur heim og að spila í Pepsi-deildinni.

„Ég veit samt ekkert meira, ég er bara að njóta þess að vera kominn heim og á eftir að ræða við þá betur úti. Ég er náttúrulega með samning við Sundsvall til 2018."

„Algjört óþarfa stress"
Sundsvall bjargaði sér fyrir horn í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar. Það var ljúft að mati Kristins.

„Það var mjög ljúft að sleppa við þetta umspil. Ég hef verið tvisvar áður í því með Halmstad og það er algjört óþarfa stress, að vera að lengja tímabilið og spila þegar veðrið er orðið lélegt," segir hann.

„Það var þannig núna að Jönköping tapaði og þeir féllu, þannig að þetta eru líka erfiðir leikir. Þú ert að mæta liði sem hefur gengið vel í Superettan (B-deildinni í Svíþjóð) og er með meðbyr og stemningu. Þetta eru hættulegir leikir."

„Þetta var mjög ljúft (að halda sætinu í deildinni) þar það sem það þurfti mikið að gerast, við þurftum að vinna og Jönköping að tapa. Við áttum ekki auðveldan leik, en enduðum á að vinna hann örugglega og svo var þægilegt að sjá úrslitin hjá Jönköping."

„Gott að hafa einn svona félaga"
„Lífið hefur verið fínt hjá Sundsvall. Tímabilið í fyrra var erfiðara, ég lenti í meiðslum og var aðeins að glíma við þau. Ég var ekki 100% í byrjun móts en ég byrja næstum alla leikina í deildinni."

„Það hefur gengið ágætlega. Það hefði verið skemmtilegra ef það hefði gengið betur hjá liðinu, það er alltaf erfitt að vera í botnbaráttu en ég er nokkuð sáttur annars."

Kristinn Freyr Sigurðsson gekk í raðir Sundsvall fyrir þetta tímabil og var að ljúka sínu fyrsta tímabili hjá félaginu.

„Það er alltaf gott að hafa annan Íslending, ég var með Gaua Bald hjá Halmstad. Það er fínt að geta talað íslensku á æfingum og vera með einn svona félaga," sagði Kristinn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner