mið 22. nóvember 2017 18:30
Ingólfur Stefánsson
Heimild: BBC 
Ótrúleg meiðslavandræði Plymouth - Fjórir markmenn meiddir
Derek Adams þjálfari Plymouth
Derek Adams þjálfari Plymouth
Mynd: Getty Images
Lið Plymouth Argyle í C-deildinni á Englandi er að ganga í gegnum ótrúleg meiðslavandræði þessa dagana. Fjórði markmaður liðsins, Michael Cooper, sem spilar í unglingaliðinu, meiddist á fingri á æfingu í vikunni. Varamarkvörður unglingaliðsins, Max Childs, var því á varamannabekk liðsins í 2-0 sigri á Northampton í gær.

Aðalmarkvörður liðsins og fyrirliði, Luke McCormack, hefur ekki spilað síðan í september vegna ökklameiðsla og varamarkvörðurinn Kyle Letheren er frá út árið vegna meiðsla á læri sem hann varð fyrir í október.

Eftir að Robbert te Loeke, þriðji markvörður liðsins, meiddist í baki eftir að hafa komið inn á sem varamaður fyrir Letheren fékk Plymouth sérstakt leyfi til að fá Remi Matthews, þriðja markmann, Norwich að láni.

Derek Adams þjálfari liðsins segist eiga bágt með að trúa stöðunni sem liðið er í. „Það er fáránlegt að hafa fjóra markmenn frá vegna meiðsla. Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt sem þjálfari. Þegar mér var sagt í gær að Cooper væri meiddur trúði ég því ekki."

Plymouth mun ekki fá annað leyfi til þess að bæta við sig markmanni og þarf því að bíða fram í janúar til þess.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner