Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 23. mars 2016 14:56
Elvar Geir Magnússon
Benteke: Skil ekki af hverju Klopp hunsar mig
Benteke finnst hann ekki fá sanngjörn tækifæri hjá Klopp.
Benteke finnst hann ekki fá sanngjörn tækifæri hjá Klopp.
Mynd: Getty Images
Belgíski sóknarmaðurinn Christian Benteke færist nær því að yfirgefa Liverpool í sumar eftir viðtal sem hann veitti í heimalandinu.

Þar segist hann ekki skilja af hverju Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, hunsi sig.

Benteke hefur aðeins skorað átta mörk í 35 leikjum síðan hann var keyptur til Liverpool frá Aston Villa fyrir 32,5 milljónir punda í fyrrasumar. Hann hefur aðeins byrjað fimm af sextán leikjum síðan í lok desember og skorað tvö mörk, annað úr víti.

Talað hefur verið um að Benteke henti ekki hápressuleikstíl Klopp og samband þeirra tveggja kom til umræðu eftir að stjórinn virtist skamma leikmanninn eftir 3-2 tapið gegn Southampton síðasta sunnudag.

Klopp hefur talað þá umræðu niður og sagt að Benteke sé í hans framtíðaráætlunum. Sjálfur virðist Benteke ekki sammála því.

„Sumir liðsfélagar mínir sögðu mér að ég væri heppinn þegar Klopp var ráðinn því ég myndi klárlega spila. Hann sagðist hafa viljað fá mig til Borussia Dortmund en stuttu síðar erum við hjá sama félagi og maður skilur ekki af hverju hann hunsar mann," segir Benteke.

„Ég var auðvitað ánægður þegar ég gekk í raðir Liverpool, frábært félag. Ég vissi að ég gæti átt erfiða mánuði en þegar lengra væri liðið myndu hlutirnir virka. Ég er fyrsti maðurinn til að segja að ég hafi ekki sýnt mitt besta fyrir félagið en hinsvegar vissi ég þegar Brendan Rodgers var ráðinn að ég myndi fá tækifæri til að sýna hvað ég get. Að ég væri peninganna virði og ætti skilið að klæðast treyju Liverpool. En núna... Ég vissi að nýr stjóri gæti verið á annarri skoðun og það gerðist."

Benteke finnst sú umræða fáránleg að hann henti ekki leikstíl Liverpool eins og Klopp vilji spila.

„Ég skil ekki þá umræðu. Ég get verið mjög hreyfanlegur og spilað pressu. Það er ekki eins og við séum að spila Barcelona leikkerfi. Ég spilaði tvo heila leiki í röð eftir að Klopp tók við. Ég skoraði gegn Leicester og fylgdi því eftir með marki gegn Sunderland. Svo töpuðum við gegn West Ham og ég hef verið útilokaður," segir Benteke og viðurkennir að faðir sinn sé líka pirraður með hans stöðu hjá Liverpool

„Þegar þjálfari treystir þér ekki er ekkert hægt að gera. Ég hefði aldrei skrifað undir ef þjálfarinn hefði ekki lagt áherslu á að fá mig. Ég vonast enn eftir því að ganga vel hjá Liverpool. Sjáum hvað gerist eftir tímabilið."

Benteke er samningsbundinn Liverpool til 2020 en hann hefur verið orðaður við West Ham í sumar. West Ham hefur staðfest að félagið hafi áhuga á honum.
Athugasemdir
banner
banner
banner