Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 23. apríl 2014 13:15
Elvar Geir Magnússon
David Moyes minnist ekki á leikmenn í yfirlýsingu sinni
David Moyes er búinn að kveðja Old Trafford.
David Moyes er búinn að kveðja Old Trafford.
Mynd: Getty Images
David Moyes sendi í morgun frá sér yfirlýsingu en honum var sagt upp störfum hjá Manchester United í byrjun vikunnar.

Í upphafi yfirlýsingarinnar segist hann ævinlega vera stoltur af því að hafa fengið stjórastarfið hjá Manchester United, einu stærsta fótboltafélagi heimsins.

„Alltaf var ljóst að það að taka við eftir svona langan kafla af stöðugleika og velgengni yrði gríðarleg áskorun. En ég hikaði aldrei við að láta vaða," segir Moyes.

Hann segist hafa lagt sig allan fram fyrir félagið og það hafi starfslið hans einnig gert.

„Við lögðum allt okkar í það verkefni að vinna að endurbyggingu aðalliðsins og vorum einbeittir að því. Það starf þurfti að vinna samhliða því að reyna að ná góðum úrslitum í úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni. En því miður þá voru úrslit leikja ekki í takt við það sem stuðningsmenn Manchester United eru vanir. Ég bæði skil og deili pirring þeirra."

Moyes þakkar þeim stuðningsmönnum sem staðið hafa með honum í gegnum allt tímabilið og óskar þeim og félaginu alls hins besta. Einnig þakkar hann starfsfólki félagsins.

„Ég hef alltaf verið á því að knattspyrnustjóri hætti aldrei að læra gegnum ferilinn og ég veit að ég mun taka með mér gríðarlega reynslu frá þessum tíma. Ég er enn stoltur að hafa stýrt liðinu í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar og er þakklátur Sir Alex Ferguson fyrir að hafa trúað á mína hæfileika og gefið mér þetta tækifæri."

Athygli vekur að hann minnist ekkert á leikmenn í yfirlýsingu sinni en hávær orðrómur var uppi um að ósætti væri í gangi milli hans og leikmanna í hópnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner