mið 23. apríl 2014 12:30
Magnús Már Einarsson
Heyrnarlaus og borðar hamborgara fyrir leiki
Orri Freyr borðar hamborgara og franskar klukkutíma fyrir alla leiki.
Orri Freyr borðar hamborgara og franskar klukkutíma fyrir alla leiki.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Liðsfélagar mínir kvarta mjög mikið yfir því að ég heyri ekki í þeim.  Ég er alveg heyrnarlaus öðru megin og ef ég sný ekki eyranu að þeim sem er að kalla þá getur hann alveg eins sleppt því.
,,Liðsfélagar mínir kvarta mjög mikið yfir því að ég heyri ekki í þeim. Ég er alveg heyrnarlaus öðru megin og ef ég sný ekki eyranu að þeim sem er að kalla þá getur hann alveg eins sleppt því.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Ég hélt fyrst að ég væri að fá hjartaáfall því að einkennin eru svipuð.  Þú færð agalegan sting út í aðra öxlina og missir eiginlega meðvitund.  Maður var orðinn þrælvanur þessu á endanum og vissi hvað var að fara að gerast.  Þetta endaði á heljarinnar lungna aðgerð sem varð til þess að ég var frá keppni í fleiri mánuði.“
,,Ég hélt fyrst að ég væri að fá hjartaáfall því að einkennin eru svipuð. Þú færð agalegan sting út í aðra öxlina og missir eiginlega meðvitund. Maður var orðinn þrælvanur þessu á endanum og vissi hvað var að fara að gerast. Þetta endaði á heljarinnar lungna aðgerð sem varð til þess að ég var frá keppni í fleiri mánuði.“
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Ég tók einn fimm vikna túr á frystitogara árið 2012 og líkaði afar vel.  Þetta er ekkert ósvipað fótbolta, þarna er ein liðsheild að vinna að sama markmaði.  Þetta starf er helmingi auðveldara en að vera kennari og launin eru aðeins betri.  Það er hrikalega erfitt að komast að á sjónum á haustin en ef skipstjórar eru að lesa þetta þá mega þeir endilega ná í kallinn.
,,Ég tók einn fimm vikna túr á frystitogara árið 2012 og líkaði afar vel. Þetta er ekkert ósvipað fótbolta, þarna er ein liðsheild að vinna að sama markmaði. Þetta starf er helmingi auðveldara en að vera kennari og launin eru aðeins betri. Það er hrikalega erfitt að komast að á sjónum á haustin en ef skipstjórar eru að lesa þetta þá mega þeir endilega ná í kallinn."
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
,,Ég gerði þessi kjarakaup í Walmart í Bandaríkjunum þegar ég keypti tíu pör af húðlituðum sokkum.  Þetta er ekki alveg að falla nógu vel í kramið hjá liðsfélögum þannig að ég geri í því að mæta í þeim á æfingum til að pirra þá.
,,Ég gerði þessi kjarakaup í Walmart í Bandaríkjunum þegar ég keypti tíu pör af húðlituðum sokkum. Þetta er ekki alveg að falla nógu vel í kramið hjá liðsfélögum þannig að ég geri í því að mæta í þeim á æfingum til að pirra þá.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Nafn: Orri Freyr Hjaltalín
Aldur: 33 ára
Staða: Varnarmaður

Heyrnarlaus ,,afi“ sem spilar í sparisokkum og borðar hamborgara fyrir alla leiki. Þú reiknar líklega ekki með að þessi lýsing sé á leikmanni í Pepsi-deildinni en þar skjátlast þér. Orri Freyr Hjaltalín leikmaður Þórs sker sig úr að mörgu leyti en hann hefur til að mynda spilað allan ferilinn heyrnarlaus á öðru eyra.

,,Liðsfélagar mínir kvarta mjög mikið yfir því að ég heyri ekki í þeim. Ég er alveg heyrnarlaus öðru megin og ef ég sný ekki eyranu að þeim sem er að kalla þá getur hann alveg eins sleppt því,“ segir Orri hlæjandi við Fótbolta.net.

,,Þetta hefur sína kosti og galla og ég held að kostirnir séu ekki síðri. Maður heyrir það sem maður vill heyra og hitt síast bara út. Þetta er snilld þegar það eru læti og maður ætlar að fara að sofa. Þá leggur bara góða eyrað á koddann og rotast.“

Lungað eyðilagði atvinnumannadrauminn
Orri byrjaði 15 ára að spila með meistaraflokki Þórs og eftir vasklega framgöngu í fremstu víglínu var hann keyptur til Tromsö árið 2002. Dvölin þar var þó talsvert styttri en reiknað hafði verið með.

,,Ég var búinn að vera úti í þrjá mánuði þegar lunga féll saman. Á einu og hálfu ári kom þetta fyrir sex sinnum. Ég gat verið að horfa á sjónvparið og þá hoppaði þetta niður. Ég hélt fyrst að ég væri að fá hjartaáfall því að einkennin eru svipuð. Þú færð agalegan sting út í aðra öxlina og missir eiginlega meðvitund. Maður var orðinn þrælvanur þessu á endanum og vissi hvað var að fara að gerast. Þetta endaði á heljarinnar lungna aðgerð sem varð til þess að ég var frá keppni í fleiri mánuði.“

,,Ég var dæmdur ónýtur þarna úti og atvinnumannaferillinn var frekar stuttur. Ég var tvítugur þarna og ég vissi að ég yrði aldrei keyptur aftur út eftir þetta. Ég hef gaman að svo mörgu öðru að ég fór bara á fullu í golfið, það tók við,“
sagði Orri sem er duglegur í golfinu en hann er með 8 í forgjöf.

Orri fór að leika aftar á vellinum eftir dvölina í Noregi en eftir stutta endurkomu hjá Þór fór hann til Grindavíkur þar sem hann spilaði frá 2004-2011. Orri kunni vel við tímann í Grindavík en hann segist hafa snemma á ferlinum ákveðið að spila með þeim gulklæddu.

,,Við Þórsarar komumst ekki upp úr 1. deildinni árið 2003 og ég var á leiðinni suður í skóla svo ég ætlaði að taka 2-3 tímabil þar. Ég endaði hins vegar á að spila átta tímabil. Við fengum Leif Guðjónsson á láni frá Grindavík árið 1998 og hann byrjaði strax það sumar að plata mig í Grindavík. Ég var löngu búinn að lofa honum að koma í Grindavík. Það var síðan frábært að ná svona mörgum leikjum með liðinu í efstu deild. Það var æðislegt að spila þarna fyrir utan rokið.“

Topp fimm aulalegustu mörkin
Orri fór aftur í Þór fyrir sumarið 2012 og hjálpaði liðinu að endurheimta sæti í Pepsi-deildinni. Í fyrrasumar var varnarleikur Þórs og markvarsla í sviðsljósinu af röngum ástæðum og Orri segir hafa verið erfitt að horfa upp á það í mörgum leikjum.

,,Þetta var mjög sérstakt. Ef ég ætti að setja upp topp fimm lista yfir aulalegustu mörkin á ferlinum þá held ég að þau hafi öll verið í fyrra. Þetta var sorglegt hvernig þetta fór og klaufalegt en það er ekki verið að benda á einn né neinn,“ segir Orri en hann er ánægður með framfarirnar í varnarleiknum í vetur.

,,Ég er eiginlega fullviss um að við munum standa okkur betur en í fyrra. Við erum með mun meiri stöðugleika í okkar leik. Við fengum Lárus Orra (Sigurðsson) inn í þjálfarateymið og hann hefur tekið varnarleikinn í gegn. Við erum líka komnir með öflugan markvörð í Sandor Matus sem kom frá KA og við erum hættir að fá á okkur mikið af mörkum.“

Vill komast á sjóinn
Utan fótboltans hefur Orri heldur betur mörg járn í eldinum. Hann er forfallakennari auk þess að þjálfa tvo yngri flokka hjá Þór. Þá vinnur hann af og til sem málari og í löndun. Orri vonast til að snúa sér að sjómennsku þegar fótboltaferlinum lýkur.

,,Ég tók einn fimm vikna túr á frystitogara árið 2012 og líkaði afar vel. Þetta er ekkert ósvipað fótbolta, þarna er ein liðsheild að vinna að sama markmaði. Þetta starf er helmingi auðveldara en að vera kennari og launin eru aðeins betri. Það er hrikalega erfitt að komast að á sjónum á haustin en ef skipstjórar eru að lesa þetta þá mega þeir endilega ná í kallinn,“ segir Orri sem er á já.is.

Orri hefur gælunafnið ,,afi“ innan Þórsliðsins en það er nafn sem festist við hann snemma á ferlinum. Liðsfélagar Orra gera einnig óspart grín að sokkum sem hann æfir í en þeir halda því fram um sé að ræða ljótustu æfingasokka á landinu.

,,Ég gerði þessi kjarakaup í Walmart í Bandaríkjunum þegar ég keypti tíu pör af húðlituðum sokkum. Þetta er ekki alveg að falla nógu vel í kramið hjá liðsfélögum þannig að ég geri í því að mæta í þeim á æfingum til að pirra þá,“ segir Orri sem æfir alltaf í sparisokkum.

,,Ég get ekki verið í fótboltasokkum. Mér finnst þægilegast að vera í þunnum, ljótum sparisokkum. Ég píni mig í fótboltasokkana í leikjum en stundum klippir maður neðan af þeim og er í sparisokkunum innan undir. Ég veit ekki af hverju mér finnst þetta vera betra, ég hef bara gert þetta alla tíð.“

Hamborgari, franskar og Coke fyrir leiki
Fáir fótboltamenn spila í sparisokkum og þeir eru líka mjög fáir sem hafa sama mataræði og Orri fyrir leiki.

,,Ég borða alltaf hamborgara og franskar fyrir leiki og drekk Coke með, helst klukkutíma fyrir leik. Ég vil ekki sjá þetta pasta og dót. Ég er með öðruvísi skrokk en margir aðrir og ef ég borða pasta þá er ég aftur svangur eftir hálftíma, það situr ekkert í mér. Hamborgarinn fer vel í magann á mér og það er góð orka í þessu.“

,,Það hafa næstum allir þjálfarar sem hafa þjálfað mig reynt að breyta þessu en það hefur gengið illa. Liðsfélagar mínir hafa líka rekið upp stór augu þegar þeir sjá mig borða hamborgara fyrir leiki en svona er þetta, það eru ekki allir eins,“
segir Orri að lokum. Svo sannarlega orð að sönnu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner