Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 23. apríl 2014 12:15
Elvar Geir Magnússon
Palli Gísla: Ekkert lið í áskrift að stigum
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs.
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Það er allt í lagi að vera spáð níunda sæti. Ég hef litlar áhyggjur af því hvar okkur er spáð," segir Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs.

Akureyrarliðinu er spáð níunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar.

„Við ætlum að sjálfsögðu að reyna að gera eins og allir hinir: Betur en í fyrra. Við enduðum í áttunda sæti þá svo það kemur sjálfsagt engum á óvart að spáð sé að við endum á þessum slóðum. Við erum alveg vanir því"

„Við erum á ágætis róli og það hefur gengið þokkalega í þessum leikjum á undirbúningstímabilinu. Við erum alltaf að verða þéttari og erum nokkuð brattir. En þegar við erum komnir á grasið þá kemur kannski betur í ljós hvar við erum staddir. Það gekk illa í fyrra þegar við fórum á gras og við vorum eins og kálfar. Þetta verður bara að koma í ljós en við erum vonandi klárari en síðast."

Páll Viðar og Lárus Orri Sigurðsson eru farnir að vinna saman aftur en Lárus var ráðinn aðstoðarþjálfari.

„Við þekkjumst mjög vel og ekki að ástæðulausu sem ég fékk hann í þetta. Hann hefur verið að gera flotta hluti hérna eins og við var að búast. Þetta hefur gengið ágætlega," segir Páll en hvernig er standið á hópnum?

„Það er ágætt. Það eru nokkrir í smávægilegum meiðslum en ég held að það verði allir verði klárir í fyrsta leik í Keflavík."

„FH, KR, Stjarnan og Breiðablik eru þessi lið sem flestir spá baráttunni um þetta allt saman. Svo er bara að sjá hvort eitthvað lið getur blandað sér í þá baráttu. Í þessum Lengjubikar hefur sýnt sig að allir geta unnið alla á góðum degi. Það er ekkert lið í áskrift að stigum. Það er erfitt að átta sig á því hvernig þetta verður."

Við fengum Pál Viðar til að nefna það lið sem hann telur líklegast til að vinna deildina og telur hann FH sigurstranglegasta liðið.
Athugasemdir
banner