sun 23. apríl 2017 13:30
Kristófer Kristjánsson
Segir að Rashford geti fyllt í skarð Zlatan
Jesse Lingard (t.v.) og Marcus Rashford (fyrir miðju) á góðri stundu
Jesse Lingard (t.v.) og Marcus Rashford (fyrir miðju) á góðri stundu
Mynd: Getty Images
Jesse Lingard hefur fulla trú á því að Marcus Rashford, samherji hans hjá Man Utd, geti fyllt upp í það skarð sem nú er orðið vegna meiðsla Zlatan Ibrahimovic.

Alvarleg hné meiðsli Zlatan þýða að hann tekur ekki meira þátt á tímabilinu en hann er langmarkahæsti leikmaður liðsins með 28 mörk í öllum keppnum.

Rashford er með 10 mörk hingað til en þessi 19 ára framherji skoraði gegn Chelsea um síðustu helgi auk þess að setja sigurmarkið í framlengdum leik gegn Anderlecht í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Jesse Lingard segir að allir leikmenn liðsins verði að stíga upp í fráveru Svíans en hann efast ekki um það að Rashford verði stjarna á Old Trafford.

„Liðið þarf núna að treysta meira á framherjana til að skora en Rashford hefur sjálfstraustið sem allir framherjar þurfa til að setja boltann í netið í hverri viku," sagði Lingard.

„Hann er mjög þroskaður, þetta sex mánaða tímabil þar sem hann skoraði ekki fékk ekki á hann. Hann er beinskeyttur, skemmtilegur leikmaður sem fær stuðningsmenn til að standa upp. Svo lengi sem hann heldur áfram að skora þá getur enginn sagt neitt um hann."


Athugasemdir
banner
banner
banner