„Fyrstu þrjú stigin eru komin í hús, það er gott," sagði Ásgeir Ingólfsson fyrirliði Grindavíkur eftir 2-0 sigur á Gróttu í 1. deildinni í dag en liðið hafði tapað fyrir Fjarðabyggð og Haukum í fyrstu tveimur leikjunum og unnið svo Þrótt Vog í bikarnum.
Lestu um leikinn: Grindavík 2 - 0 Grótta
„Mér fannst við eiga þetta fullkomnlega skilið. Mér fannst þeir aldrei ógna okkur og við fá nokkur góð færi. 2-0 sigur er þokkalega sanngjarnt."
Eftir að hafa tapað fyrir Fjarðabyggð heima í fyrstu umferðinni og svo gegn Haukum úti í annarri var mikilvægt fyrir Grindavík að vinna leikinn í dag.
„Við höfðum átt tvo fína leiki en að tapa þeim og vera með 0 stig úr fyrstu tveimur, þá vorum við svolítið komnir með bakið upp við vegg. Við þyrftum að fá þrjú stig og mér fannst frammistaðan hjá liðinu góð í dag og þrjú stigin voru sannarlega góð í dag."
Ásgeir lenti í smá deilum við Kristján Ómar Björnsson fyrrverandi liðsfélaga sinn í Haukum í leiknum í dag sem endaði á að sá síðarnefndi henti boltanum í hann.
„Ég þekki Kristján Ómar vel og ég held að öll stúkan hafi séð þegar hann grýtti sér niður þarna. Ég bauðst til að hjálpa honum upp og hann kastaði boltanum. Hann hefði átt að fá gult spjald fyrir það, svo braut hann seinna í leiknum og fékk gult. Hann hefði með réttu átt að fá rautt spjald í þessum leik."
Athugasemdir