þri 23. maí 2017 13:00
Magnús Már Einarsson
Þrenna Tryggva - Óvanalegt hjá FH
Mynd: Fótbolti.net
FH hefur verið í basli í byrjun.
FH hefur verið í basli í byrjun.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net, skoraði margar þrennur á ferlinum og í sumar verður hann með þrennuna eftir hverja umferð í Pepsi-deildinni. Þar tekur Tryggvi fyrir þrjú málefni sem brenna á honum.

Skrýtið að sjá FH í 8. sæti
Það er óvanalegt að sjá Íslandsmeistarana í þessari stöðu. Með einn sigurleik í fyrstu fjórum og búnir að fá á sig sjö mörk. Þetta er ekki byrjunin sem FH ætlaði sér og þeir eru strax búnir að missa aðra kandídata fram úr sér. Það er mikið búið að ræða þessa nýju taktík sem FH fór í og hvort hún sé ekki að virka. Þetta er mjög ólíkt FH og það er mjög skrýtið að kíkja á töfluna og sjá FH í 8. sæti. Það eru ár og dagar síðan það gerðist. Ef satt reynist hjá Heimi að menn hafi látið einhverja frétt, umfjöllun eða tölfræði hafa áhrif á sig þá eru menn alls ekki andlega nógu góðir fyrir toppbaráttu, ef þetta eitt og sér nær að slá menn út af laginu.

Nýliðar á flugi
Fyrst við vorum að tala um FH í 8. sæti þá er gaman að sjá KA og Grindavík í þriðja og fjórða sæti. Það er ekki oft sem maður sér báða nýliðana byrja svona vel. Það kemur stundum fyrir að annar þeirra skjótist upp en núna eru báðir nýliðarnir að byrja vel og ná í góð úrslit. Við munum hvernig gengi Víkings Ólafsvíkur dalaði í fyrra en mér finnst heildarbragurinn á nýliðunum vera mjög flottur núna og það er ekkert sem bendir til þess að þau sogist niður. Það er gott fyrir þau að komast svona ofarlega í töfluna á meðan önnur lið eins og ÍA eru stigalaus. Ég held að nýliðarnir séu samt ekkert að hugsa um það endilega heldur njóta augnabliksins með bullandi sjálfstraust.

Samstuð en ekki gróft brot
Ég skil gremju Guðmundar Steins Hafsteinssonar yfir rauða spjaldinu gegn ÍBV. Mér fannst þetta vera harður dómur. Mér fannst þetta vera miklu meira samstuð heldur en gróft brot. Halldór Páll í markinu og Guðmundur eru báðir að horfa á boltann og Guðmundur sér ekki að Halldór Páll er kominn út. Guðmundur er bara að reyna að fara í boltann. Gunnar Jarl var of snöggur að rífa upp þessi spjöld. Hann hefði mátt gefa sér aðeins meiri tíma í að átta sig á aðstæðum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner