Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fös 23. júní 2017 12:15
Arnar Daði Arnarsson
Þjálfari umferða 1-9: Nú vilja allir vinna besta liðið
Halldór Jón Sigurðsson (Þór/KA)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bryndís Lára gekk í raðir Þórs/KA fyrir tímabilið.
Bryndís Lára gekk í raðir Þórs/KA fyrir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sandra Stephany hefur skorað sex mörk í sumar og lagt upp sex.
Sandra Stephany hefur skorað sex mörk í sumar og lagt upp sex.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Bianca Sierra og Hulda Björg hafa verið frábærar í vörn Þórs/KA í sumar.
Bianca Sierra og Hulda Björg hafa verið frábærar í vörn Þórs/KA í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Þór/KA hefur verið valinn besti þjálfari umferða 1-9 í Pepsi-deild kvenna. Þór/KA er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga með markatöluna 22-3.

Halldór Jón tók við liði Þórs/KA fyrir tímabilið og gengi liðsins heldur betur komið mörgum á óvart., eða hvað?

Gengið kemur ekki á óvart
„Ég get ekki sagt það. Gengið hjá okkur kemur ekkert sérstaklega á óvart. Við lögðum upp með að vinna alla leiki og það hefur gengið eftir," sagði Halldór Jón og hélt áfram.

„Við erum mjög ánægðar og vonandi höldum við þessu áfram."

Þeir sem fylgst hafa með Pepsi-deildinni í sumar hafa margir undrast á þessu góða gengi og sumir vilja meina að Halldór Jón eða Donni, sé með þessu að sýna styrk sinn sem þjálfara.

„Ég er mjög reynslu mikill þjálfari. Þetta er sjöunda árið mitt sem meistaraflokksþjálfari og ég hef upplifað ýmislegt. Síðan hef ég verið í fótbolta síðan ég man eftir mér og hef líklega spilað í öllum deildum á Íslandi. Ég hef mikla reynslu og ég held að það sé að hjálpa mér."

„Ég veit ekki hvort ég sé að "out-coacha" deildina en reynslan er klárlega að nýtast í því sem ég er að gera."

Býr heilmikið í yngri leikmönnunum
Þegar Donni tók við Þór/KA fyrir áramót segir hann að undirbúningur fyrir sumarið hafi strax byrjað. Eftir að ljóst var hverjir yrðu í hópnum hafi hann fljótlega áttað sig á því hvaða leikskipulag hann vildi að liðið myndi spila. Segja má að það hafi hitt í mark.

Leikur liðið hefur einkennst af frábærum varnarleik, vinnusemi og skeinuhættum sóknarleik. Síðan er ljóst að vel hefur farið yfir hugarfar leikmanna.

„Ég fór að vega og meta styrkleika liðsins út frá því. Þetta var niðurstaðan að spila þessa leikaðferð og við sáum það fljótlega að við vorum með lið sem var tilbúið til að gera eitthvað. Þór/KA hefur verið í toppbaráttu í þónokkur ár og það var engin ástæða til að slaka á."

Það hefur vakið athygli hversu ungur leikmannahópur liðsins er og í hversu stóru hlutverki margar ungar stelpur eru í liðinu.

„Það býr heilmikið í þeim ungu leikmönnum sem við höfum ofan á útlendingana. Það má ekki gleyma því, þrátt fyrir það sé mikið talað um Söndru Stephany þá er gríðarlega mikill efniviður hjá okkur. Við erum að treysta á margar ungar og efnilegar stelpur sem hafa mikinn möguleika á verða enn betri en þær eru í dag," sagði Donni sem segir það vera frábært og að þjálfarateymið treysti mikið á þær.

„Mörg lið bæta við sig leikmönnum en við í rauninni misstum leikmenn. En það sem við gerðum enn betur en mörg lið er að við styrktum innviði félagsins. Við styrktum atriði sem varðar liðsheild, samheldni og þess háttar. Það skiptir sköpum í knattspyrnu og síðan höfum við verið að gefa ungum leikmönnum séns."

„Þegar maður gefur ungum og uppöldum leikmönnum meira tækifæri og traust þá gefa þær yfirleitt allt í það sem þær eru að gera. Ég get nefnt, Huldu Björg sem hefur gjörsamlega sprungið út. Ég veit ekki hvort hún hafi spilað mínútu í fyrra, í það minnsta spilaði hún ekki mikið. Ég get nefnt fleiri ungar stelpur sem hafa skipt sköpum," sagði Donni en Hulda Björg Hannesdóttir er einmitt í liði fyrri umferðar Pepsi-deildarinnar.

Jóhann Gunnar Kristinsson, fráfarandi þjálfari Þórs/KA var eilítið gagnrýndur í fyrra fyrir að gefa varamönnum liðsins fáar mínútur og oft á títt skiptum varamönnum sínum seint inná í leikjum. Áttu þessir leikmenn skilið fleiri mínútur í fyrra og eru að blómstra í ár?

„Eigum við ekki að segja það. Við höfum verið að rótera örlítið fleiri ungum leikmönnum. Það eru tvær fæddar árið 2001 sem hafa verið að spila og þá var ein á eldra ári í 4. flokki í hóp í síðasta leik. Við höfum verið að gefa fleiri leikmönnum tækifæri til að vera hluti af hópnum."

„Síðan snýst þetta um að halda vel utan um hópinn sinn og treysta leikmönnum fyrir því sem þær eru að gera, sama hvað þær eru gamlar eða hvað þær hafa gert áður."

Stefna á fullt hús stiga
Donni býst við erfiðri seinni umferð og segir það vera klárt mál að nú stefni öll lið á að vinna besta lið deildarinnar, Þór/KA.

„Það er eðli málsins samkvæmt að það vilja allir vinna besta liðið. Síðan eru liðin farin að átta sig aðeins betur á því hvað við erum að gera, taktíkslega séð. En við erum undir það búin og vitum hvað við ætlum að gera þegar liðin fara breyta einhverju á móti okkur."

„Þegar líður á tímabilið þá verða þetta enn erfiðari leikir fyrir okkur. Liðin leggja meiri áherslu á að vinna okkur í seinni umferðinni, ég held að það sé nokkuð ljóst," sagði Donni en það mátti sjá pirring í leikmönnum í síðasta leik gegn FH þegar sigurmarkið kom ekki fyrr en undir lokleiks.

„Þetta eru miklir keppnismenn í liðinu og þeir vilja vinna. Það gekk pínu brösuglega í síðasta leik gegn FH og við náðum að skapa fá færi og mér fannst eins og þær hafi viljað gera betur. Stelpurnar voru orðnar óþreyjufullar, ekki beint pirraðar."

En getur Þór/KA farið í gegnum deildina með fullt hús stiga?

„Við stefnum á það. Það hefur alltaf verið uppleggið og við stefnum áfram á það. Svo gerist það sem gerist. Það er engin spurning, það er markmiðið," sagði Halldór Jón Sigurðsson þjálfari umferða 1-9 í Pepsi-deild kvenna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner