mið 23. júlí 2014 17:30
Magnús Már Einarsson
Poyet vonast ennþá til að sannfæra Borini
Borini fagnar marki með Sunderland.
Borini fagnar marki með Sunderland.
Mynd: Getty Images
Gus Poyet, stjóri Sunderland, vonast ennþá til að sannfæra Fabio Borini um að koma til félagsins frá Liverpool.

Borini skoraði tíu mörk á láni hjá Sunderland á síðasta tímabili en Liverpool samþykkti á dögunum 14 milljóna punda tilboð félagsins í leikmanninn.

Borini hefur hins vegar sjálfur ekki ennþá tekið ákvörðun um það hvort hann fari til Sunderland eða verði áfram hjá Liverpool.

,,Þetta veltur á Fabio. Það er engin spurning um tengingu hans við félagið. Ég og hann náum vel saman svo það er engin ástæða fyrir því af hverju þetta ætti ekki að ganga upp," sagði Poyet.

,,Ég myndi vilja vita hvað það tekur langan tíma að fá botn í þetta en það eina sem ég get sagt ykkur er að hlutirnir breytast daglega."

,,Við erum með skotmörk sem við erum að skoða og við höfum aðra möguleika. Við höfum náð samkomulagi við Liverpool og munum gera allt sem við getum til að fá Fabio til félagsins. Ef Fabio kemur ekki þá verður það ekki bakslag fyrir okkur. Við erum ekki eins manns lið."


Poyet vonast einnig til að vinstri bakvörðurinn Marcos Alonso komi til Sunderland frá Fiorentina en hann var á láni hjá félaginu á síðasta tímabili.
Athugasemdir
banner