mið 23. ágúst 2017 17:00
Elvar Geir Magnússon
Campbell kominn með leið á því að fara á lán
Staða Campbell er í mikilli óvissu.
Staða Campbell er í mikilli óvissu.
Mynd: Getty Images
Joel Campbell er mættur aftur til Arsenal en hann hefur látið félagið vita af því að hann sé ekki hrifinn af því að fara enn og aftur á lánssamningi.

Þessi 25 ára sóknarmaður hefur þegar farið sex sinnum á lán á ferli sínum.

Hnémeiðsli sem hann hlaut með landsliði Kosta Ríka í júlí hafa flækt stöðu hans. Hann mætti aftur til æfinga hjá Arsenal á mánudaginn og vinnur að því að gera sig kláran.

Campbell kom til Arsenal þegar hann var 19 ára gamall en spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið félagsins í ágúst 2014, eftir að hann fór á kostum með Kosta Ríka á HM í Brasilíu.

Á síðasta tímabili var hann hjá Sporting Lissabon en hefur einnig verið lánaður til Lorient, Olympiakos og Real Betis.

Samtals hefur hann skorað þrjú mörk í 23 leikjum fyrir Arsenal.

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, vinnur að því að minnka leikmannahóp sinn. Hann er með 28 leikmenn sem eru þremur leikmönnum meira en úrvalsdeildin miðar við.
Athugasemdir
banner
banner