Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 23. ágúst 2017 15:16
Magnús Már Einarsson
Gulli Jóns: Vonast til að þetta verði sú orka sem vantar upp á
Gunnlaugur Jónsson.
Gunnlaugur Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnlaugur ásamt syni sínum.
Gunnlaugur ásamt syni sínum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég átti fund með stjórnarmanni í hádeginu á mánudaginn. Hann tjáði mér að það væri ekki 100% einhugur á bakvið mig. Ég hafði sagt honum fyrr í sumar að ef menn vildu breyta til þá væri ég til í að stíga til hliðar. Sú leikflétta fór í gang á mánudaginn. Jón Þór (Hauksson) tók við og ég studdi það. Ég hef mikla trú á honum sem þjálfara," sagði Gunnlaugur Jónsson, fráfarandi þjálfari ÍA, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Gunnlaugur ákvað að hætta sem þjálfari ÍA á mánudaginn, degi eftir 1-0 tap liðsins gegn ÍBV í 16. umferð Pepsi-deildarinnar.

„Ég fór fram á að það yrðu engin sárindi og þetta yrði gert þannig að ég myndi skilja við félagið í sátt. Það dróst aðeins að ná í Jón Þór og það var smá panik en mér fannst mikilvægt að gera þetta á mánudaginn. Ég vildi tilkynna leikmönnum þetta á mánudaginn áður en þeir myndu fara í eins eða tveggja daga frí."

Hefur trú á liðinu
ÍA er sex stigum frá öruggu sæti á botni Pepsi-deildarinnar en Gunnlaugur segir að liðið geti ennþá bjargað sæti sínu.

„Ég vonast til að þetta verði sú orka sem liðið vantar upp á. Það voru mikil vonbrigði með þennan leik gegn ÍBV en ég hef trú á því að liðið geti endað tímabilið með sóma. Eins og þetta mót er að spilast þá er alveg í spilunum að liðið geti gert hið ótrúlega ef vel fer á sunnudaginn. Ég vonast til að það gangi eftir og þetta verði sú innspýting sem þarf til."

Gunnlaugur tók við ÍA haustið 2013 eftir að liðið féll úr Pepsi-deildinni. Undir hans stjórn fór ÍA beint aftur upp í Pepsi-deildina árið 2014.

„Ég held að okkur hafi tekist vel til. Við náðum því markmiði að komast beint upp. Við gerðum vel á fyrsta tímabili og enn betur í fyrra. Það situr í manni að við vorum í séns á að gera atlögu að Evrópusæti í fyrra þegar kom að seinna landsleikjahléinu. Það er leikur gegn Þrótti sem við töpuðum og vorum gríðarlega ósáttir með hvernig við fórum inn í. Við töpuðum síðan fjórum af síðustu fimm leikjunum. Ég er viss um að ef við heðfum unnið Þróttaraleikinn þá hefðum við gert alvöru atlögu að Evrópusæti. Allur veturinn og þetta tímabil hefur verið brekka og það hefur gengið erfiðlega að komast upp hana."

Gæti tekið frí frá fótbolta
Gunnlaugur stýrði Selfossi árið 2009 og síðan þá hefur hann einnig þjálfað Val, KA, HK og nú ÍA. Hann segir að framhaldið sé óráðið.

„Maður er að fá kærkomið frí og tækifæri til að anda. Ég ætla að sjá hvort ég haldi áfram eða söðli jafnvel um og taki mér frí frá fótbolta. Ef þannig tækifæri bjóðast þá á ég alveg eins von á því að ég kúpli mig aðeins í burtu," sagði Gunnlaugur að lokum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner