mán 23. september 2013 13:30
Magnús Már Einarsson
Jónas Gestur: Hefðum haldið okkur með þennan mannskap
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Við byrjuðum rosalega illa en okkur óx ásmeginn eftir því sem leið á tímabilið. Í lokin áttum við séns á að halda okkur uppi en því miður tókst það ekki," segir Jónas Gestur Jónasson formaður knattspyrnudeildar Víkings frá Ólafsvík en eftir tap gegn Fylki er ljóst að liðið fer aftur niður í fyrstu deild.

Ólafsvíkingar fengu fjóra erlenda leikmenn til liðs við sig fyrir mót sem voru allir farnir heim áður en mótið var hálfnað. Í júlí fékk liðið síðan fjóra Spánverja í sínar raðir og þá fór liðinu að ganga betur.

,,Það var mjög erfitt að ná í liðsstyrk fyrir mót og við hefðum þurft að fá fleiri leikmenn en það var mjög erfitt að eiga við það. Við fengum ekki nógu góða leikmenn erlendis frá en Spánverjarnir sem komu í glugganum stóðu sig mjög vel."

,,Það er pottþétt að við hefðum haldið okkur uppi ef við hefðum haft þennan mannskap sem við vorum með í lok móts."


Ekki er ljóst hvort að Spánverjarnir muni leika áfram með Ólafsvíkingum næsta sumar.

,,Það er slatti af mönnum með lausan samning og við erum að vinna í þessum málum núna. Það verður að koma í ljós hvernig lið við mætum með í 1. deildina en það er ljóst að við ætlum að mæta með sterkt lið og við munum vinna hörðum höndum að svo verði," sagði Jónas sem er ánægður með stuðningsmenn Ólafsvíkinga.

,,Við erum mjög þakklátir öllu fólkinu á Snæfellsnesi sem hefur stutt okkur gríðarlega vel sem og þeir brottfluttu á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningurinn hefur verið frábær og ég vil þakka þeim kærlega fyrir þeirra framlag, það hefur verið ómetanlegt."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner