banner
   þri 23. september 2014 18:21
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin: Markalaust í Grafarvogi - Vonin um úrslitaleik lifir
Þórir Guðjónsson klúðraði ótrúlegu færi.
Þórir Guðjónsson klúðraði ótrúlegu færi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölnir 0 - 0 Stjarnan

Það var fínt veður í Grafarvoginum þar sem Fjölnir og Stjarnan áttust við í afar mikilvægum leik í Pepsi-deildinni. Leikurinn átti upphaflega að vera á sunnudag en var frestað vegna veðurs.

Fjölnismenn voru líklegri í fyrri hálfleiknum og fékk Mark Magee sannkallað dauðafæri en brást bogalistin og skot hans framhjá. Staðan markalaus í hálfleik.

Eftir rúman klukkutíma kom eitt af atvikum sumarsins. Rangstöðutaktík Stjörnunnar klikkaði og Þórir Guðjónsson slapp aleinn í gegn. Þórir fékk eiginlega of mikinn tíma og steig á boltann og færið rann út í sandinn. Ótrúlegt atvik.

Í uppbótartíma fékk Gunnar Már Guðmundsson, leikmaður Fjölnis, beint rautt spjald fyrir groddaralega tæklingu. Ekkert var skorað í leiknum og stigunum því skipt á milli

Stigið gerir það að verkum að Stjarnan er tveimur stigum á eftir FH þegar tvær umferðir eru eftir. Næstsíðasta umferðin verður á sunnudag þegar Valur mætir FH og Stjarnan fær Fram í heimsókn. FH og Stjarnan mætast svo í lokaumferðinni svo ljóst er að Stjarnan verður Íslandsmeistari ef liðið klárar báða leiki sína. Hlutlausir vonast eftir hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni.

Stjörnumenn geta sætt sig við stigið en þeir máttu alls ekki tapa leiknum í dag.

Fjölnismenn eru í fallbaráttu, eru tveimur stigum fyrir ofan Fram sem situr í fallsæti. Fjölnir mætir Fylki á sunnudag og fær ÍBV í heimsókn í lokaumferðinni.

Smelltu hér til að skoða textalýsingu frá leiknum
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner