Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 23. september 2015 18:00
Magnús Þór Jónsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Uppgjör 1. deildar 2015
Magnús Þór Jónsson
Magnús Þór Jónsson
Víkingur Ólafsvík sigraði 1. deildina í sumar.
Víkingur Ólafsvík sigraði 1. deildina í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Þróttar fylgdu Ólafsvíkingum upp.
Þróttar fylgdu Ólafsvíkingum upp.
Mynd: Fótbolti.net
Ævar Ingi Jóhannesson var í lykilhlutverki hjá KA.
Ævar Ingi Jóhannesson var í lykilhlutverki hjá KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þórsarar enduðu í 4. sæti.  Jóhann Helgi og Sveinn Elías voru lykilmenn þar.
Þórsarar enduðu í 4. sæti. Jóhann Helgi og Sveinn Elías voru lykilmenn þar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Óli Stefán Flóventsson og Tommy Nielsen þjálfarar Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson og Tommy Nielsen þjálfarar Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björgvin skoraði grimmt í spútnikliði Hauka.
Björgvin skoraði grimmt í spútnikliði Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Fjarðabyggð gekk vel fyrri hluta sumars.  Eftir það lá gengið niður á við.
Fjarðabyggð gekk vel fyrri hluta sumars. Eftir það lá gengið niður á við.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
HK olli vonbrigðum.
HK olli vonbrigðum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pétur Pétursson tók við Fram snemma móts.
Pétur Pétursson tók við Fram snemma móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Zoran Miljkovic var rekinn frá Selfyssingum.
Zoran Miljkovic var rekinn frá Selfyssingum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Grótta fagnar einu af fáum mörkum sínum í sumar.
Grótta fagnar einu af fáum mörkum sínum í sumar.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
BÍ/Bolungarvík vann einungis tvo leiki.
BÍ/Bolungarvík vann einungis tvo leiki.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Viðburðaríku sumri er lokið í 1.deildinni og því ekki úr vegi að rúlla aðeins yfir lokastöðuna og hvernig sumarið varð hjá liðunum tólf sem í henni tóku þátt.
Fótbolti.net hefur áður farið yfir hvernig spáin um deildina í þessari frétt hérna en mig langar aðeins að skutla minni sýn á þessa deild eftir að hafa náð að horfa á býsna marga leiki þar í sumar.

1.sæti: Víkingur
Svo það sé sagt þá er ég auðvitað hlutdrægur þegar kemur að umfjöllun um nesbúana í Víkingi, mitt heimalið lengst af sumri. Uppskeran var mögnuð á þeim bænum, jöfnun á stigameti og mörkum skoruðum í 12 liða 1.deild og sæti í Pepsideildinni á næsta ári. Mest af þeim árangri tel ég liggja hjá þjálfaranum Ejub því mögnuð frammistaða liðsins seinni hluta móts skyggir töluvert á þétta frammistöðu liðsins í fyrri hlutanum. Það er alltaf vandaverk að púsla saman liði úti á landi og Ejub fór hárrétta leið þar, var vissulega heppinn með þá leikmenn sem hann fékk en fyrstu leikir sumarsins einkenndust af þéttum varnarleik þar sem eitt mark eða mesta lagi tvö dugðu til sigurs. Hafsentaparið Luba og Kubat lykilmennirnir með mögulega besta markmann deildarinnar fyrir aftan sig í Liberato algerir lykilmenn. Aukið sjálfstraust og síðan „svindlsenter“ í formi Tokic bjó svo til að mínu viti besta lið sem leikið hefur í B-deild Íslandsmót síðan Akranes var þar á ferð með síðasta gullaldarlið sitt, ósigrandi mulningsvél í bláu ruddi öllu sem á veginum varð. Næsta sumar verður mjög fróðlegt, Víkingar féllu strax niður úr Pepsideild síðast og eiga því að vita hvað ber að forðast þar, en á sama hátt þarf alltaf að hefja vinnu við uppbyggingu liðs á landsbyggðinni allt að því á núllpunkti þó frést hafi að einhvern grunn séu menn að ná að leggja. Mikið mun mæða á því að Víkingar haldi lykilmönnum sínum frá í sumar því þá á liðið fullt erindi í að láta taka mark á sér í efstu deild.

2.sæti: Þróttur
Drengirnir úr Laugardalnum sigldu skútunni upp í Pepsideild í síðustu umferðinni eftir hikst um miðbik móts. Gregg þjálfari sagði að því loknu að engu máli skipti hvenær stig söfnuðust, heildartalan í lokin réði öllu. Það er auðvitað hárrétt hjá honum en lykillinn að árangri Þróttar var auðvitað mögnuð byrjun liðsins þar sem þjálfarateymið var einfaldlega með liðið í allt öðrum klassa líkamlega og taktískt en hin liðin. Í lokin endaði liðið með 44 stig en þar af fékk það 21 stig úr fyrstu 7 leikjunum. Til að skoða hlutföll þá var árangurinn semsagt 100% í byrjun en eftir það 53% sem yfir heilt tímabil myndi þýða 35 stig og fimmta sætið í deildinni. Þar var Þrótti spáð og ég tel Gregg hafa sýnt mikla kænsku í sínu uppleggi sem skilaði liðinu betri árangri en mörg önnur lið sem voru klárlega sterkari á pappír. Leikmenn voru fullir sjálfstrausts í byrjun og unnu öfluga sigra sem töldu að lokum. Svo þegar KA virtist ætla að ná ótrúlegum endaspretti til að slá Þróttara niður þá héldu þeir sínum fókus og uppskáru að lokum. Eins og hjá Víkingum þá hefur sóknarleikurinn svolítið „stolið“ athyglinni enda þeir Acoff og Viktor frábærir leikmenn og alltof góðir fyrir 1.deild. Með því er þó litið framhjá bestu leiktímabilum Trausta markmanns og Karls Brynjars í hafsentinum auk þess sem Hallur fyrirliði fékk minni athygli en hann átti skilið enda á ferðinni eitt traustasta tímabil hans lengi. Næsta sumar leika Þróttarar á meðal þeirra stóru og munu þurfa að styrkja liðið enda bilið milli tveggja efstu deilda töluvert. Auðvitað á Viktor Jónsson að verða þeirra stærsta takmark fyrir þau átök, strákurinn mun án vafa skora fullt af mörgum í efstu deild hvort sem röndin með þeirri rauðu verður hvít eða svört. Klúbburinn allur hefur lengi beðið eftir því að fá að kljást á meðal þeirra stóru aftur og munu leggja mikið á sig til að festa sig í sessi. Þar munu þeir þurfa á kænsku þjálfarans og enn öflugra vinnuframlagi leikmanna að halda – og því að Köttararnir vakni nú með hvelli og stígi taktinn frá upphafi móts eins og þeir gerðu undir lok þessa.

3.sæti: KA
Það er auðvitað eilítið sérstakt að leggja það hér upp að KA séu vonbrigði tímabilsins, ekki síst eftir að fyrirliðinn sagðist bara ánægður með útkomuna eftir síðasta leik. Í baráttu að fara upp til síðustu umferðar og falla út úr bikarnum á vítakeppni í undanúrslitum fyrir meisturunum. Er það ekki góður árangur bara?
Auðvitað er það ekki vondur árangur í sjálfu sér nema fyrir það að allt Ísland vissi hvað KA ætluðu sér. Það þurfti ekkert hashtagið hans Sævars til að segja okkur frá því og umræðan um að það hefði verið kjánalegt hjá honum var kjánalegri. KA ætlaði sér að vera á meðal Pepsideildarliðanna 2016 og fjárfestu í leikmannahópi til þess. Sennilega var bitinn sem stóð í þeim gott bikargengi þar sem liðið lék frábærlega og sýndi sitt betra andlit. Tvö jafntefli gegn Fram, klúðurtap gegn HK og síðast ótrúlegt heimatap fyrir Grindavík kom í veg fyrir það að tilætluðum árangri væri náð. Vandi 1.deildarliða er svo sá að það skiptir í raun afar litlu máli hvort maður lendir í 3.sæti eða 10.sæti, það gefur það nákvæmlega sama, áframhaldandi veru í 1.deild. Þjálfarskipti urðu á miðju tímabili þar sem Bjarni virtist ekki ná meira út úr liðinu og nú hafa KA menn tilkynnt að þeir halda trausti á Tufa og hann stjórnar liðinu áfram. Gaman verður að sjá hvað hann gerir, hvort hann sækir leikmenn í sterkan 2.flokk félagsins eða hvort að KA halda áfram að fjárfesta í leikmönnum sem koma annars staðar frá. Í þeirra röðum er sá leikmaður sem ég tel bestan á landinu utan þeirra leikmannahópa sem verða í Pepsideild 2016, Ævar Ingi Jóhannesson, miklu máli skiptir fyrir norðanmenn að hann standist freistinguna að bíða ekki lengur eftir að leika á meðal þeirra bestu, hans skarð yrði vandfyllt. Og áður en Sævar fer á twitter aftur, við vitum öll að KA ætlar að vera í Pepsideildinni 2017.

4.sæti: Þór
Jafn mikið og mér fannst augljóst að KA menn ætluðu sér upp kom mér á óvart að heyra Þórsara svekkja sig á því að hafa ekki náð takmarki sínu um að komast upp um deild. Spáin taldi þá munu lenda í 6.sæti sem var klárlega birtingarmynd þess að liðið átti erfitt tímabil 2014 og breytingar í leikmannahóp og þjálfarateymi fannst mér vera á þann hátt að þetta ár ætti að vera eilítið „endurstillingarár“ fyrir Þórsara.
Ekki það að Þór horfir alltaf til þess að vera meðal þeirra bestu og þegar horft er á sumarið þeirra þá geta þeir nagað sig í handarbökin fyrir að hafa tapað fyrir Gróttu á heimavelli og eilítilla erfiðleika á útivöllum, annars hefðu þeir mögulega bara farið upp. Það verður þó ekki litið framhjá því að í þeim sex leikjum sem Þórsarar léku við liðin sem enduðu fyrir ofan þá í töflunni náðu þeir aðeins í þrjú stig þegar þeir unnu Þróttara á heimavelli. Öðrum töpuðu þeir, síðast býsna vondur skellur í nágrannaslagnum sem staðfesti það að Þórsarar voru númeri of litlir í það að leika á meðal þeirra bestu.
Þeir hafa þegar gefið það út að þeir ætli sér að gera betur á næsta ári. Alger lykill þess er að þeir haldi í lykilmenn eins og Jóhann Helga og Svein Elías og nái að styrkja þær stöður sem veikari voru. Þar lýgur taflan ekki, lið sem fær á sig 34 mörk mun ekki fara upp um deild og á því þurfa „Þorpararnir“ að taka, þá gæti alveg orðið sigurgleði í félagsheimilinu Hamri þar sem kaffið bragðast best!

5.sæti: Grindavík
Suðurnesjamennirnir náðu aldrei almennilegu flugi og óstöðugleiki einkenndi þeirra leik. Eins og hjá Þórsurum lágu vandamálin í varnarleiknum þar sem liðið lak mörkum en að auki náðu þeir ekki að nýta heimavöllinn sinn nægilega vel í leikjunum gegn liðunum fyrir ofan sig sem er algert skylduverk ef árangur á að nást.
Í liðinu er fullt af frambærilegum fótboltamönnum sem hægt var að gera kröfu til að ná mun betri árangri í gulu og bláu þetta sumarið og þegar hefur verið gefið út að liðið ætli sér upp á næsta ári. Það að Tommy Nielsen segi það upphátt hlýtur að slá niður þrálátan orðróm um að gerðar verði breytingar á þjálfarateyminu í Grindavík sem er vissulega óreynt og ætti að hafa lært mikið í sumar. Það er mikill metnaður í starfi knattspyrnudeildar félagsins en í sumar var býsna fámennt á heimaleikjunum og stemmingin í kringum liðið minni en oft áður. Þar þarf að verða breyting á ef að liðið á að ná árangri í mikilli samkeppni um tvö efstu sætin næsta sumar, það virkar ekki alveg á mann á þessum tímapunkti að það sé líklegt. En Grindvíkingar vita hvað þarf til að komast upp úr deildinni og það á að hjálpa þeim til þess að fylla upp í þau skörð sem til þarf.

6.sæti: Haukar
Spútniklið 1.deildar og ef ekki kæmi til sigur Huginsmanna í 2.deild væru þeir spútniklið allrar deildarkeppninnar á Íslandi. Spáin hljómaði upp á 9.sæti en það var líka tilkomið út af ágætu gengi í vorleikjunum. Þegar Luka Kostic tók við þessu liði og leikmenn fóru að týnast frá því sagðist hann ætla að nota ungu strákana og það veit nú oft á vandamál í næstefstu deild. Það varð öðru nær, Haukar voru öruggir allt sumarið og í raun ekkert langt frá því að blanda sér í baráttuna um sæti í efstu deild. Klaufalegt jafntefli við BÍ/Bolungarvík í 21.umferð kom í veg fyrir það að þeir færu inn í frestaðan leik við Þróttara með von um að geta náð 2.sæti. Auðvitað hefði það verið eilítið að „kýla upp fyrir sig“ og klúbburinn ekkert haft gott af því að fara upp en það setur frammistöðu Haukanna í gott samhengi. Þeir voru bara með alvöru lið í sumar. Lið sem var ólseigt og erfitt að vinna, skynsamir í varnarleiknum og beittu öflugum skyndisóknum með Björgvin Stefánsson í fantaformi sem markakóng deildarinnar. Þjálfarateymið á allt hrós skilið og nú verður gaman að sjá hvernig þeir ná að byggja ofaná árangurinn. Ég held að öllum sé ljóst að þeir munu ekki ná að halda lykilmönnum svo glatt, hvort sem þeir fara erlendis eða liðin í Pepsideildinni munu verða áfangastaðurinn. Þá verða Luka og Tóti að kafa aftur djúpt í þjálfarabókina til að búa til leikmenn og miðað við árangur sumarsins þá ætti sú bók að hafa mörg trikk sem geta a.m.k. skapað Haukum ákveðinn stöðugleika sem klúbbur og væri þá hægt að byggja á til framtíðar.

7.sæti: Fjarðabyggð
Ef við tölum um lið sem áttu sveiflukennt sumar þá eiga Austfirðingarnir í Fjarðabyggð undir stjórn eðaldrengjanna Binna og Duffield þann stimpil algerlega kláran. 24 stig í fyrri umferð og 7 í seinni umferð. Í síðustu umferðinni voru 13 leikmenn á leikskýrslu og botninn virtist alveg dottinn úr. Viðtalið sem Brynjar gaf í kjölfar leiksins sýndi nú sennilega fram á það að um mitt sumar virðist eitthvað hafa komið upp innan klúbbsins sem hafi valdið einhverri óeiningu sem birtist svo í vondum úrslitum frá miðju móti.
Fjarðabyggð voru nýliðar í deildinni og komu inn í mótið fullir sjálfstrausts, héldu bara áfram að sigra leiki líkt og þeir höfðu gert áður. Töluvert bættist í leikmannahópinn fyrir mót og andinn í félaginu virkaði býsna sterkur. Seinni umferðin byrjaði á þremur heimaleikjum fyrir austan og úr þeim fengu menn aðeins tvö stig, nokkuð sem ýtti mönnum út úr toppslagnum þangað sem liðið átti aldrei afturkvæmt í. Breiddin í hópnum var ekki mikil og ekkert var bætt í á meðan glugginn var opinn og má kannski leiða líkum að því að þar hafi ekki alveg farið saman sýn þjálfarateymisins og annarra. En hvað sem öllum þessum kenningum líður þá er ljóst að Fjarðabyggð getur verið heilt yfir sátt við þetta sumar sem nýliðar í deildinni. Nú er að sjá hvort þeir halda sínum lykilmönnum og byggja ofaná til þess að reyna að halda út í toppbaráttu næstefstu deildar. Þar þurfa menn fyrir austan að finna „einingarbandið“ sem er mikilvægast af öllu í klúbbum sem eru sameinuð lið margra lítilla félaga eins og Fjarðarbyggð er. Finna sér átt og allir togi í þá átt. Saman.

8.sæti: HK
Kópavogsbúarnir voru það lið sem féllu mest frá spá Fótbolta.net. Enduðu í 8.sæti eftir að hafa verið spáð sæti nr. 4 – og mögulegri baráttu um að komast upp. Skemmst frá að segja var það aldrei í kortunum. Eftir sigra í tveimur fyrstu leikjunum komu 5 tapleikir í röð og þann kúrs náðu HK menn aldrei að rétta af. Ágætis kafli um miðbik mótsins kom svo í veg fyrir það að liðið væri í einhverri fallbaráttu svo að útkoman var tiltölulega lygn sigling í gegnum mótið, nokkuð sem var klárlega undir væntingum í Kópavoginum. Óstöðugleikinn birtist ágætlega þegar í það er rýnt að liðið var annað tveggja í sumar sem tapaði fyrir BÍ/Bolungarvík en vann bæði KA og Þrótt á sínum heimavelli.
Liðið er ágætlega skipað, framherjinn Guðmundur Atli klárlega einn af bestu sóknarmönnum deildarinnar og hinir „ungu“ HK-ingar hafa verið að öðlast stöðugt meiri reynslu. Í dag virðist óvíst hvort Þorvaldur Örlygsson heldur áfram að þjálfa liðið og þegar er ljóst að Viktor Illugason hefur ákveðið að hætta í kjölfar þrálátra meiðsla. Metnaður HK liggur í að fara ofar en þetta sæti sagði til um en til þess þá þarf að styrkja liðið töluvert til að byggja á þann kjarna sem fyrir er. Annars er staðan eins og hún var í sumar viðvarandi hjá klúbbnum.

9.sæti: Fram
Hvað á maður eiginlega að segja um Framara eftir þetta sumar sem virðist vera eins langt frá og hægt er sumrinu 2013 þar sem liðið varð bikarmeistari? Það er beinlínis erfitt að átta sig á stöðu meistaraflokksfótbolta í Fram eftir þetta tímabil þar sem aldrei var nú lognmolla í kringum þennan fyrrum risa í íslenskum fótbolta.
Þjálfaraskipti í upphafi móts komu eilítið eins og þruma úr heiðskíru lofti og verkefni Péturs Péturssonar var sannarlega ekki öfundsvert. Liðið virkaði í slöku formi, varnarleikurinn í molum og leikmenn sem voru fengnir til að styrkja liðið og voru býsna sterkir „á pappírnum“ fundu sig aldrei nokkurn tíma. Þegar í ofanálag bættust fréttir af ósætti innan stjórnar þá var á ferðinni baneitraður kokteill sem var nálægt því að fara illa. Fram var einfaldlega ansi nálægt því að falla niður í C-deild íslensks fótbolta og það er auðvitað ekkert annað en stórslys á þeim bænum…og nokkuð sem komandi stjórn, þegar hún verður sett á laggirnar, þarf að læra af.
Fyrsta skrefið verður að sjá hvort Pétur þjálfar liðið áfram, það er morgunljóst að honum finnst ekki gaman að tapa og mun gera kröfu um tiltekt, nokkuð sem má nú telja líklegt að verði raunin óháð þjálfara. Félagið er nú flutt á nýjar slóðir að stærstum hluta og þarf að nýta sér það til að eignast nýtt upphaf fjarri skugga „gamla“ Fram og þess risa sem það lið var. Á þessum tímapunkti finnst manni ekki ljóst hvert liðið stefnir og fer, það eru vissulega efnilegir menn í félaginu en þó býsna langt undan og næsta skref verður að felast í sér stöðugleika sem felst í betra fótboltaliði en var fyrir augum fólks í sumar.
Um það er einfalt að skrifa en oft erfiðara að framkvæma. Það þarf að lyfta Grettistaki hjá Frömurum, það kannski varð enn meira ljóst eftir hroðalega skelli í síðustu umferðum deildarinnar gegn Víkingum og Grindavík. Annars fer illa. Mjög illa.

10.sæti: Selfoss
Kannski væri bara best að gera „copy-paste“ það sem ég skrifa hér að ofan um Selfyssinga sem ætluðu sér örugglega stærri hluti en það að lenda í 10.sæti deildarinnar. Miklar vonir voru bundnar við „skipstjórann“ Zoran Miljkovic sem þjálfara en fyrir því reyndist einfaldlega engin innistæða og ljóst mál að orðspor hans sem þjálfara hefur nú fallið töluvert á undanförnum árum. Gunnar Borgþórsson tók við í 11.umferð og eftir magnaðan sigur á Þrótti fylgdi hryllilegur tími þar sem liðið fékk eitt stig í fimm leikjum en sigrar á Fram og síðan Gróttu urðu til þess að falldraugurinn var töluvert undan í lokin. Líkt og hjá Fram þurfa Selfyssingar að horfa alvarlega á þessa áminningu sem þeir fengu í sumar ef ekki á illa að fara. Aðstaðan á Selfossi er orðin hreint mögnuð og klúbburinn hefur allt til þess að bera til að ná langt.
Undanfarin ár hefur liðið verið að fá til sín leikmenn utan frá sem hafa ekki náð neinum hæðum eða styrkt það að einhverju verulegu leyti og það verða menn að horfa á. Leikmenn sem eru fengnir til liða verða að vera töluvert sterkari en þeir sem eru þar fyrir og verða þá til þess að gera þá leikmenn betri. Þannig hefur það ekki verið á Selfossi nú um skeið. Stærsta vandamál þeirra í sumar var arfaslakur sóknarleikur, 20 mörk í 18 leikjum. Félag sem bjó til Viðar Kjartansson og Jón Daða Böðvarsson auk Sævars Þórs Gíslasonar hér áður fyrr þarf að gera betur, markahæsti leikmaðurinn var með 5 mörk!
Selfyssingar þurfa að koma sér upp sterkum heimakjarna og sækja sér gæðaleikmenn í þær stöður sem þá vantar til að koma þeim ofar og á þann stall sem þessi klúbbur klárlega getur verið á.

11.sæti: Grótta.
Seltirningar voru einfaldlega númeri of litlir í 1.deildina og fara aftur niður eftir eitt ár þar. Í kjölfar þess að liðið vann sér þar sæti haustið 2014 urðu töluverðar breytingar á leikmannahópi og skipt var um þjálfara, reynsluboltinn Gunnar Már Guðmundsson var fenginn til að reyna að stabílisera Gróttuna í næstbestu deild.
Það einfaldlega tókst ekki. Sennilega var getumunur deildanna of mikill því þeir leikmenn sem áttu hvað ríkastan þáttinn að koma liðinu upp réðu ekki við að leika í 1.deildinni. Gunnar tók þann kostinn að leggja upp úr þéttum varnarleik sem var ákaflega skiljanlegt og lengi vel voru menn ekki að tapa leikjum stórt.
Sóknarleikur þeirra var hins vegar algerlega steingeldur og sennilega settu Gróttumenn met í fáum mörkum skoruðum í 12 liða deild. 10 mörk í 22 leikjum er auðvitað árangur sem leiðir af sér fall, þarf ekki mikinn sérfræðing til að sjá það. Seltirningar tóku ekki þann kostinn að sópa til sín mannskap heldur spiluðu að mestu á sínum mönnum. Nú er að sjá hvort þeir halda þeim enn um sinn og þá reynslunni ríkari. Áðurnefndur getumunur á deildunum ætti nú að vera þeim kostur, ef leikmannahópurinn verður skipaður á svipuðum nótum er ekkert því til fyrirstöðu að Gróttunnar bíði ekki löng dvöl utan næstefstu deildar. En þar verður mikilvægast að finna menn sem skora.

12.sæti: BÍ/Bolungarvík
Eftir fimm ár í næstefstu deild kveðja Vestfirðingarnir í „Skástrikinu“ nú deildina og hefja leik í 2.deild undir nýju nafni næsta sumar. Það er ekki einfalt að reka fótboltalið á Vestfjörðum, það má öllum vera ljóst og nú tókst ekki nægilega vel til við liðssöfnun þeirra aðkomumanna sem alltaf munu þurfa að koma til að styrkja lið á svo fámennu „upptökusvæði“ sem þar er. Það var ekki það að ekki væri verið að reyna, forráðamenn liðsins hafa lýst því að það fáist ekki leikmenn með íslenskt ríkisfang til að koma vestur (í sumar afsannaði Pape þá staðreynd þó) og nú fór það svo að alls sautján mismunandi leikmenn með erlent ríkisfang fengu leiki fyrir félagið í sumar. Óstöðugleikinn var alger og liðið var í fallsæti allt mótið.
Öfugt við Gróttuna náðu þeir aðeins að skora af mörkum en þeir láku að meðaltali rúmlega þremur í leik og ástæða fallsins lá fyrst og síðast þar. Vestfirðingar standa nú frammi fyrir því að byrja svolítið upp á nýtt. Þeir verða að fá stærri kjarna heimamanna inn í liðið og byggja á þeim til framtíðar. Þar liggur verkefnið hjá þeim og kannski ekki ástæða til að flýta sér of hratt í þeirri uppbyggingu, þó auðvitað séu menn orðnir góðu vanir eftir veruna í næstbestu deildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner