banner
   fim 24. mars 2016 12:47
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Johan Cruyff látinn
1947-2016
1947-2016
Mynd: Getty Images
Cruyff er líklega besti knattspyrnumaður í sögu Hollands
Cruyff er líklega besti knattspyrnumaður í sögu Hollands
Mynd: Getty Images
Cruyff hjálpaði Hollendingum að komast í úrslit HM árið 1974
Cruyff hjálpaði Hollendingum að komast í úrslit HM árið 1974
Mynd: Getty Images
Einn besti knattspyrnumaður sögunnar, Johan Cruyff, er látinn 68 ára að aldri eftir erfiða baráttu við krabbamein.

„Þann 24. mars 2016 lést Johan Cruyff á friðsamlegan hátt, umkringdur fjölskyldu sinni eftir erfiða baráttu við krabbamein. Það er með mikilli sorg sem við biðjum ykkur um að virða einkalíf fjölskyldu hans og þessari miklu sorgarstund,“ segir á vefsíðu Cruyff.

Ferill sem leikmaður:
Cruyff ólst upp hjá Ajax og lék sinn fyrsta leik fyrir félagið árið 1964. Hann fékk síðan samning og hjálpaði liðinu að verða besta lið heims. Þau ár sem Cruyff lék með félaginu (1965-1973), varð Ajax ávallt hollenskur meistari, nema einu sinni. Auk þess varð hann á þessum tíma fjórum sinnum bikarmeistari með liðinu.

Cruyff varð skjótt að einum besta knattspyrnumanni Hollendinga og hjálpaði hann Ajax að verða Evrópumeistari þrjú ár í röð, 1971, 1972 og 1973. Johan Cruyff var leikstjórnandi liðsins og var valinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu 1971 og 1973. Hann var ungur að árum kallaður inn í hollenska landsliðið, en í öðrum leik sínum fékk Cruyff að líta rauða spjaldið og varð því fyrsti Hollendingurinn í sögunni sem vísað var af velli í landsleik. Cruyff fór og lék 48 landsleiki fyrir Hollendinga og skoraði í þeimm 33 mörk, en hann hjálpaði liðinu að komast í úrslit á HM 1974, þar sem liðið tapaði á móti Vestur-Þjóðverjum í úrslitum.

Hann varð dýrasti leikmaður heims þegar Barcelona keypti hann árið 1973. Cruyff smellpassaði inn í liðið hjá Börsungum og varð hann spænskur meistari strax á fyrstu leiktíð með liðinu. Hann var valinn knattspyrnumaður Evrópu árið 1974, en hann spilaði með Börsungum til 1978 en náði þó ekki að sigra deildina aftur. Hann varð þó bikarmeistari með liðinu á síðasta árinu. Eftir sigurinn lýsti hann því óvænt yfir að hann væri hættur að spila knattspyrnu.

Það reyndist þó ekki satt því hann hélt áfram að leika og spilaði með liðum á borð við Los Angeles Aztecs, Washington Diplomats, Levante, Ajax aftur og svo loks Fayenoord, áður en hann lagði skóna endanlega á hilluna árið 1984. Hann ákvað svo að snúa sér að þjálfun.

Árangur sem leikmaður:
Hollenskur meistari (9): 1966, 1967, 1968, 1970, 1972, 1973, 1982, 1983, 1984
Hollenskur bikarmeistari (6): 1967, 1970, 1971, 1972, 1983, 1984
Spænskur meistari (1): 1974
Spænskur bikarmeistari (1): 1978
Evrópumeistari félagsliða (3): 1971, 1972, 1973
Sigurvegari í Super Cup í Evrópu (2): 1972, 1973
Heimsbikarmeistari (1): 1972
Markakóngur Hollands (2): 1967 (33 mörk), 1972 (25 mörk)
Knattspyrnumaður ársins í Evrópu (3): 1971, 1973, 1974
Knattspyrnumaður ársins í Bandaríkjunum (1): 1979
Knattspyrnumaður ársins í Hollandi (1): 1984
Knattspyrnumaður aldarinnar í Evrópu: 1999
Silfurverðlaunafi á HM 1974

Ferill sem þjálfari:
Cruyff sneri aftur til Ajax í þriðja sinn árið 1985, en nú sem þjálfari. Cruyff þjálfaði liðið í þrjú ár og gerði það tvisvar af bikarmeisturum. Hann náði ekki að vinna deildina með Ajax, en hjálpaði liðinu þó að verða Evrópumeistari bikarhafa. Hann tók svo við Barcelona árið 1988 og náði frábærum árangri. Hann vann fjölda titla með liðinu og er sigursælasti þjálfari í sögu félagsins. Hann lenti í ósætti við stjórnina hjá Barcelona og var sagt upp störfum hjá félaginu árið 1996. Hann var síðan ráðinn landsliðsþjálfari Katalóníu, en Katalónía er með óopinbert lið og leikur því einungis vináttuleiki.

Árangur sem þjálfari:
Hollenskur bikarmeistari (2): 1986, 1987
Spænskur meistari (4): 1991, 1992, 1993, 1994
Spænskur bikarmeistari (1): 1990
Evrópumeistari bikarhafa (2): 1987, 1989
Evrópumeistari meistaraliða (1): 1992
Sigurvegari í Super Cup í Evrópu (1): 1992

Cruyff er án vafa einn besti knattspyrnumaður sögunnar og verður hans sárt saknað innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Byltingarkenndur stíll hans hefur ennþá áhrif á fótboltann í dag og mun líklega gera það áfram á komandi árum og áratugum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner