Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 24. mars 2017 21:36
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Undankeppni HM: Mikilvægur sigur Íslands gegn Kosóvó
Icelandair
Ísland vann frábæran sigur!
Ísland vann frábæran sigur!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kosóvó 1 - 2 Ísland
0-1 Björn Bergmann Sigurðarson ('25)
0-2 Gylfi Þór Sigurðsson ('34, víti)
1-2 Atdhe Nuhiu ('53)
Smelltu hér til að lesa nánar um leikinn

Ísland sótti þrjá gríðarlega mikilvæga punkta til Albaníu í kvöld. Þar mættu okkar menn Kosóvó í miklum háspennuleik.

Kosóvó byrjaði leikinn betur og áttu þeir meðal annars skot í slá eftir 22 mínútur. Valon Berisha, þeirra hættulegasti leikmaður, hitti boltann vel, en hann fór í slána og yfir.

Aðeins þremur mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins. Það gerði Björn Bergmann Sigurðarson fyrir Ísland eftir að markvörður Kosóvó hafði varið skot frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Þetta var fyrsta landsliðsmark Björns Bergmanns.

Markið kom gegn gangi leiksins, en það skipti ekki máli. Íslensku strákarnir létu ekki staðar numið og bættu við öðru marki áður en flautað var til hálfleiks. Það gerði Gylfi Þór Sigurðsson úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Birki Má Sævarssyni.

Ísland fór því með 2-0 forystu í hálfleik, en Kosóvó byrjaði seinni hálfleikinn betur. Þeir náðu að minnka muninn á 53. mínútu þegar hinni stóri og stæðilegi Atdhe Nuhiu skoraði með skalla.

Íslenska liðið sýndi styrk sinn það sem eftir lifði leiks og náðu að klára hann. Lokatölur urðu 2-1 fyrir Ísland og þrjú mikilvæg stig fara því til okkar. Við erum eftir þennan leik í öðru sæti í okkar riðli, þremur stigum á eftir Króatíu.

Staðan í riðlinum:
1. Króatía 13 stig (+10)
2. Ísland 10 stig (+2)
3. Úkraína 8 stig (+3)
4. Tyrkland 8 stig (+2)
5. Finnland 1 stig (-5)
6. Kosóvó 1 stig (-12)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner