fim 24. apríl 2014 15:30
Elvar Geir Magnússon
Arnór Eyvar missir líklega af byrjun móts
Arnór Eyvar Ólafsson, hægri bakvörður ÍBV.
Arnór Eyvar Ólafsson, hægri bakvörður ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég held að það sé alveg ljóst að hann missir af fyrstu umferðunum," segir Sigurður Ragnar Ejólfsson, þjálfari ÍBV, um meiðsli hægri bakvarðarins Arnórs Eyvars Ólafssonar.

Arnór er hlekkur í hinni gríðarlega öflugu vörn Eyjaliðsins.

„Við höldum að hann sé með það sem kallast „Sports Hernia". Við héldum fyrst að þetta væri tognun í nára en þetta er líka eitthvað sem er í kviðveggnum þannig að hann á tíma hjá sérfræðingi," segir Sigurður.

„Hann hefur farið í ómun og verið hjá sjúkraþjálfara og bæklunarlækni. Hann er að bíða eftir því að fá tíma hjá Sigurði Blöndal hjá Domus Medica sem er okkar helsti sérfræðingur í þessu."

„Ef hann þarf að fara í aðgerð þá eru það alltaf 5-6 vikur held ég að lágmarki í viðbót. Hann er þegar búinn að vera frá í einn mánuð rúman. Hann getur ekki skokkað ennþá þrátt fyrir að hafa gert margar æfingar og verið í sjúkraþjálfun í mánuð. Það segir manni að þetta er meira en tognun í nára."

ÍBV endaði í sjötta sæti Pepsi-deildarinnar í fyrra en liðið mætir Fram í 1. umferðinni þetta árið þann 4. maí.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner