Kovac orðaður við stjórastól Liverpool - Newcastle vill Gibbs-White - Dewsbury-Hall orðaður við Tottenham
   fim 24. apríl 2014 09:15
Elvar Geir Magnússon
Kristján Guðmunds: Meiri þróun en á plastvöllum
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gervigrasvellir eru ekki í uppáhaldi hjá Kristjáni.
Gervigrasvellir eru ekki í uppáhaldi hjá Kristjáni.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
„Ef mið er tekið af því hvernig við kláruðum mótið í fyrra og hvernig styrkleiki liðanna í deildinni er þá getum við endað hvar sem er í kringum þetta sæti," segir Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur.

Keflavík er spáð áttunda sæti Pepsi-deildarinnar á komandi tímabili.

„Þetta er það jafnt að allt getur gerst. Mér sýnist það fyrirfram að mótið skiptist í tvennt, svipað og í fyrra. Jafnvel gætu KR og FH dregið sig enn lengra frá hinum liðunum. En ég er sammála því að það eru átta lið sem eru mjög svipuð."

Kristján segir að holningin á liðinu sé nokkuð góð.

„Heilt yfir undirbúningstímabilið og þá leiki sem við höfum spilað þá erum við sáttir. Það eru alltaf einhverjir hlutir sem maður vill laga og gera betur, það væri slæmt ef það væri ekki svoleiðis. En heilt yfir þá erum við í mjög góðu standi og erum mjög hressir."

Í marki Keflavíkur verður reynslumikill Svíi, Jonas Sandqvist, og er Kristján ánægður með hvernig hann hefur komið inn í liðið.

„Við erum ánægðir með markmanninn og eigum von á því að hann eigi eftir að reynast okkur mjög drjúgur," segir Kristján. Keflvíkingar eru ekki að glíma við nein meiðsli nú þegar styttist í mót og voru allir með liðinu á æfingu á þriðjudag.

Nýju grasvellirnir verða tilbúnir
Ástand valla hefur mikið verið í umræðunni í aðdraganda móts og háværar raddir um að gervigrasvæða íslenska boltann enn meira. Kristján vill þó finna graslyktina á sumrin og segir umræðuna um gervigras oft á tíðum ekki rétta

„Það er alveg ljóst að vellirnir eru ekki alveg tilbúnir en það er hægt að vera með nýjan grasvöll tilbúinn. Það er ekki hægt að bera nýja velli sem eru byggðir á síðustu árum saman við gamla velli. Það hefur verið meiri þróun í uppbyggingu grasvalla heldur en nokkurn tíma plastvalla," segir Kristján.

„Þeir grasvellir sem byggðir voru upp á síðustu árum verða tilbúnir í byrjun móts. Laugardalsvöllur er til dæmis ekki með hitagræjur og sand undir eins og þessir nýju vellir, eins og til dæmis í Keflavík og á Þórsvelli."

„Það er apað eftir þeim sem selja plastvellina að það hafi orðið svo mikil þróun á þeim en það hefur í raun verið meiri þróun á grasvöllum en plastvöllum."
Athugasemdir
banner
banner
banner