Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 24. apríl 2017 08:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi-deild kvenna: 2. sæti
Valur varð Lengjubikarmeistari á dögunum.
Valur varð Lengjubikarmeistari á dögunum.
Mynd: KSÍ
Elín Metta Jensen.
Elín Metta Jensen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra Sigurðardóttir markvörður Vals.
Sandra Sigurðardóttir markvörður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Keppni í Pepsi-deild kvenna hefst á fimmtudaginn. Fótbolti.net hefur undanfarna daga opinberað spá fyrir deildina í sumar en liðin hafa verið kynnt eitt af öðru. Í dag er komið að síðustu tveimur liðunum. Í 2. sætinu er Valur.

Spáin:
1. Stjarnan
2. Valur
3. Breiðablik
4. Þór/KA
5. ÍBV
6. KR
7. Grindavík
8. FH
9. Fylkir
10. Haukar

2. Valur
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í Pepsi-deild
Eftir nokkur mögur ár þá var blásið í herlúðra á Hlíðarenda fyrir síðasta tímabil. Landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir kom í Val á nýjan leik og fleiri öflugir leikmenn. Niðurstaðan varð 3. sætið í fyrra en stefnan er sett á Íslandsmeistaratitilinn í ár.

Þjálfarinn: Úlfur Blandon tók við Val af Ólafi Brynjólfssyni eftir síðasta tímabil. Úlfur stýrði karlaliði Gróttu upp úr 2. deildinni í fyrra auk þess sem hann var aðstoðarþjálfari hjá Fram í Pepsi-deild karla 2014. Þá hefur hann þjálfað yngri flokka hjá Fylki og Stjörnunni.

Styrkleikar: Valsliðið hefur fengið góðar viðbætur í vetur ofan á öflugan hóp frá því í fyrra. Málfríður Erna Sigurðardóttir styrkir liðið mikið sem og tvær mexíkóskar landsliðskonur. Sóknarleikurinn ætti að vera í toppmálum í sumar með leikmenn eins og Margréti Láru, Elíni Mettu Jensen og Vesnu Smiljkovic auk Mexíkóana. Liðið leit vel út á undirbúningstímabilinu og sigraði Lengjubikarinn.

Veikleikar: Valsliðið tapaði dýrmætum stigum í fyrra gegn liðum í fallbaráttunni og það má ekki gerast aftur í ár ef liðið ætlar sér titilinn. Lykilmenn eins og Dóra María Lárusdóttir, Elísa Viðarsdóttir og Mist Edvardsdóttir hafa meiðst illa í vetur og breiddin í hópnum er því spurningamerki. Í fyrra fékk Valur mun fleiri mörk á sig en Stjarnan og Breiðablik í titilbaráttunni og liðið þarf að loka vörninni betur í ár.

Lykilmenn: Elín Metta Jensen, Margrét Lára Viðarsdóttir, Málfríður Erna Sigurðardóttir.

Gaman að fylgjast með: Stefanía Ragnarsdóttir, fædd 2000, kom á dögunum til Vals frá Þrótti. Ungur og efnilegur miðjumaður sem skoraði í úrslitum Lengjubikarsins í síðustu viku.

Komnar
Anisa Raquel Guajardo frá Melbourne City í Ástralíu
Ariana Calderon frá Medkila í Noregi
Eva María Jónsdóttir frá KH (Var á láni)
Eygló Þorsteinsdóttir frá KH (Var á láni)
Hrafnhildur Hauksdóttir frá Selfossi
Málfríður Erna Sigurðardóttir frá Breiðabliki
Nína Kolbrún Gylfadóttir frá KH (Var á láni)
Stefanía Ragnarsdóttir frá Þrótti

Farnar
Dóra María Lárusdóttir - Ekki með vegna meiðsla
Elísa Viðarsdóttir – Ekki með vegna meiðsla
Lilja Dögg Valþórsdóttir hætt
Rebekka Sverrisdóttir hætt
Rúna Sif Stefándóttir hætt

Fyrstu leikir Vals
27. apríl Þór/KA – Valur
3. maí Valur – ÍBV
10. maí Breiðablik – Valur
Athugasemdir
banner
banner
banner