banner
   þri 24. maí 2016 13:35
Magnús Már Einarsson
Stjarnan fær undanþágu - Fjalar fær leikheimild (Staðfest)
Fjalar Þorgeirsson.
Fjalar Þorgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan hefur fengið undanþágu frá KSÍ til að fá félagaskipti þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn sé lokaður.

Duwayne Kerr, markvörður Stjörnunnar, er á leið með landsliði Jamaíka á Copa America og Guðjón Orri Sigurjónsson varamarkvörður verður frá keppni næstu fjórar til sex vikurnar. Þá er markvörðurinn ungi Sveinn Sigurður Jóhannesson í láni hjá Fjarðabyggð.

Því hefur Stjarnan fengið undanþágu til að fá félagaskipti fyrir markmannsþjálfarann Fjalar Þorgeirsson. Fjalar hefur skipt í Stjörnuna úr SR þar sem hann spilaði einn leik í 4. deildinni í fyrra.

Fjalar er á sínu öðru ári sem markmannsþjálfari Stjörnunnar en hann spilaði síðast í Pepsi-deildinni með Val árið 2014.

Hinn 39 ára gamli Fjalar er mjög reyndur markvörður en ljóst er að annað hvort hann eða 2. flokks markvörðurinn Hörður Fannar Björgvinsson verða í marki Stjörnunnar í leikjunum fram að EM hléinu í Pepsi-deildinni.

Af heimasíðu KSÍ
Framkvæmdastjóri hefur, í samræmi við ákvæði 10.2. í reglugerð KSÍ um félagaskipti, samninga og stöðu leikmanna og félaga, samþykkt beiðni Knattspyrnudeildar Stjörnunnar um undanþágu fyrir félagaskipti markvarðar fyrir meistaraflokk karla. Því hefur Fjalari Þorgeirssyni verið heimilað að skipta úr SR í Stjörnuna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner