Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 24. maí 2016 10:29
Elvar Geir Magnússon
Van Gaal gaf fjórtán úr akademíunni tækifæri
Van Gaal gaf Rashford tækifærið.
Van Gaal gaf Rashford tækifærið.
Mynd: Getty Images
Þó flestir stuðningsmenn Manchester United fagni því að Hollendingurinn Louis van Gaal hefur verið rekinn sem knattspyrnustjóri þá verður það ekki tekið af honum að hann var duglegur að gefa ungum uppöldum leikmönnum tækifæri.

Van Gaal var frægur fyrir það að gefa ungum leikmönnum tækifæri hjá Ajax, Barcelona og Bayern München og hélt uppteknum hætti hjá United. Alls gaf hann fjórtán leikmönnum úr akademíu enska stórliðsins sinn fyrsta leik.

Þar á meðal er Jesse Lingard sem þakkaði traustið með glæsilegu sigurmarki í úrslitaleik FA-bikarsins síðasta laugardag. Þar með lauk tólf ára bið félagsins eftir þessum titli.

Annar ungur sem slegið hefur í gegn er sóknarmaðurinn 18 ára, Marcus Rashford, sem á möguleika á að fara með enska landsliðinu á EM. Rashford mun spila sinn fyrsta A-landsleik gegn Ástralíu í vináttulandsleik á föstudag.

Jose Mourinho mun taka við stjórastarfinu á Old Trafford en hann hefur alls ekki sömu sögu þegar kemur að ungum leikmönnum. Ljóst er að það verður þó sett pressa á hann að nota unga leikmenn félagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner