„Maður er náttúrulega svekktur að gera jafntefli á heimavelli“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks í Pepsi deild karla eftir jafntefli gegn Valsmönnum á Kópavogsvelli í kvöld.
„Fyrri hálfleikur var svolítið klafs og lítið um færi en mér fannst samt vera meira líf í seinni hálfleiknum. Mér fannst við koma vel inn í seinni hálfleikinn svona fyrsta hálftímann, vorum mun betri, héldum boltanum nánast allan tímann og fengum einhverja möguleika á því að skapa okkur dauðafæri. Á síðasta korterinu komu Valsmenn vel inn í þetta.“
„Fyrirfram hefði maður viljað fá þrjú [stig] hérna heima en við vitum það að við erum að spila á móti mjög góðu Valsliði. Þegar maður fer í gegn um leikinn þá held ég að bæði lið geti verið sátt með þetta eina stig. Auðvitað er maður samt ósáttur við það.“
Oliver og Atli Sigurjónssynir voru ekki í leikmannahópi Breiðabliks í dag vegna meiðsla, en verða þeir lengi frá?
„Oliver er meiddur en ég á von á því að hann verði klár á móti lettneska liðinu (FK Jelgava) í næstu viku og vona líka að Atli Sigurjóns verði klár þá.“
„Það voru vissulega jákvæðir punktar eins og að halda hreinu og það er hægt að taka sitt lítið úr þessum leik en við hefðum mátt vera aðeins grimmari í seinni hálfleik, sækja aðeins meira.“
Athugasemdir