Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 24. júlí 2014 23:12
Jóhann Óli Eiðsson
Rúnar Páll: Hann fékk eitthvað helvíti í magann
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Mynd: Kerry Roberts
„Ég er glaður og ánægður með strákana og hvernig þeir léku. Ég gæti ekki verið glaðari,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson eftir 3-2 sigur Stjörnunnar í framlengingu á Motherwell í Evrópudeildinni. Stjarnan fór áfram samanlagt 5-4.

„Þetta var ótrúlegt að fá markið þarna í lokin. Við trúðum allir á þetta og sýndum það allan síðari hálfleikinn og framlenginguna að við vorum mikið sterkari aðilinn. Það eina sem þeir gerðu var að senda langa bolta fram. Þeir sköpuðu ekki mikið í þessum leik nema annað markið og úr hornspyrnum.“

„Við vissum að við þyrftum að loka á vængina og við gerðum það mjög vel. Í staðinn fengum við á okkur haug af hornspyrnum sem voru stórhættulegar í fyrri hálfleik en við lokuðum fyrir þær í síðari hálfleik.“

„Þrátt fyrir að við höfum misst Veigar út af þá kom öðruvísi taktur í liðið með Toft og þegar hann fór út kom annar öskufljótur inn. Þeir fara mikið upp með bakverðina sína og hafsentarnir þeirra eru hægir og við nýttum okkur það.“


Stjarnan hafði sigur í einvíginu þrátt fyrir að hafa lent undir í fjórgang. „Við höfum sýnt mikinn karakter í sumar þegar við lendum undir. Það er þvílík seigla og skipulag í strákunum og þeir gefast ekki upp. Ég er alveg hrikalega stoltur af þeim. Á móti sterku liði Motherwell þá vorum við sterkari aðilinn.“

Stjarnan hóf síðari hálfleik framlengingarinnar einum færri þar sem Rene Toft skilaði sér ekki eftir að hafa hlaupið inn í búningsherbergi.

„Hann fékk bara eitthvað helvíti í magann! Hann þurfti að fara að skíta þarna í hálfleiknum og náði bara ekki til baka þannig við urðum að skipta honum útaf. Hann var búinn að vera með krampa í maganum, leið ekki vel og gat varla hlaupið. Svona er lífið.“

„Ég veit ekki hvort það er heimaleikur eða útileikur fyrst gegn Pólverjunum. Það er allavega hrikalega sterkt lið og við hlökkum mikið til að mæta þeim.“

Athugasemdir
banner
banner