sun 24. júlí 2016 18:00
Arnar Geir Halldórsson
Mourinho pirraður á dvölinni í Kína - Hörmulegar aðstæður
Mourinho er ekki að nenna Kína
Mourinho er ekki að nenna Kína
Mynd: Getty Images
Æfingaferð Man Utd til Kína virðist vera frekar misheppnuð ef mið er tekið af orðum Jose Mourinho, stjóra félagsins.

Á morgun mætast Man Utd og Man City í Peking í seinni æfingaleik Man Utd í ferðinni en ástand vallarins í kínversku höfuðborginni þykir afar slæmt.

Man Utd steinlá fyrir Borussia Dortmund á föstudag 4-1 en Mourinho segir úrslit leiksins á morgun ekki skipta neinu máli. Aðalatriðið sé að leikmenn Man Utd forðist meiðsli.

„Því miður fyrir fólkið í Peking er völlurinn mjög slæmur. Ástand leikmanna minna skiptir meira máli en úrslit á undirbúningstímabili. Mitt eina markmið er að komast með alla leikmenn mína heila heim. Þetta eru engar aðstæður til að spila góðan fótboltaleik."

„Leikurinn mun bara snúast um að forðast meiðsli til að allir geti haldið áfram að æfa. Ég vona að okkar leikmenn og leikmenn Man City meiðist ekki,"
segir Mourinho.

Til að bæta gráu ofan á svart lentu liðsmenn Man Utd í hremmingum við að komast til Peking þar sem helmingur hópsins lenti í miklum töfum í fluginu þar sem þurfti að grípa til nauðlendingar.

„Við þurftum að skipta hópnum í tvennt og fara í sitthvort flugið. Þeir sem voru í fyrra fluginu voru heppnir því það gekk vel fyrir sig og við náðum að lenda og komast á hótelið til að borða kvöldmat."

„Seinni hópurinn var ekki jafn heppinn. Þeir þurftu að nauðlenda og bíða í nokkra tíma. Þeir voru svo að koma á hótelið eftir miðnætti,"
segir Mourinho áður en hann svaraði afhverju Man Utd væri að ferðast til Kína á undirbúningstímabilinu.

„Ég vil bara komast aftur til Manchester og byrja að stýra æfingum með öllum hópnum."

„Við gerum þetta fyrir stuðningsmennina og þetta er gott fyrir fjárhagslegu hliðina. Þrátt fyrir allt er góður andi í hópnum og við komumst í gegnum þetta. Morgundagurinn er okkar síðasti dagur hérna og þá er þetta búið,"
sagði Mourinho.

Athugasemdir
banner
banner