Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mán 24. júlí 2017 11:30
Magnús Már Einarsson
Efst í huga Jóa eftir leik - Vantar „leikbreyti“ í okkar lið?
Markinu gegn Sviss fagnað.
Markinu gegn Sviss fagnað.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fanndís á sprettinum gegn Sviss.
Fanndís á sprettinum gegn Sviss.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolti.net, rýnir vel í leiki landsliðsins á EM í Hollandi. Hér má sjá uppgjör hans eftir 2-1 tapið gegn Sviss í öðrum leik á laugardaginn.


Það glitti í það góða og því eru vonbrigðin meiri
Það er engum til góðs að bera í bakkafullan lækinn með því að röfla mikið um tapleikinn gegn Sviss. Flest hefur líklega verið sagt bæði rangt og rétt og misgáfulegt auðvitað líka. Það sem gerði vonbrigðin hjá mér svona mikil voru þrjú atriði. Kannski vegna þess að í einum og sama leiknum þá sýndu stelpurnar gæði, aga og skipulag í þessum þremur atriðum en á móti klikkuðu þær svo á þessum sömu atriðum sem varð líklega til þess að leikurinn tapaðist.

Varnarleikurinn
Hann var öflugur í leiknum. Frá fremsta leikmanni til þess aftasta. Allir lögðu allt í varnarleikinn. NEMA þegar þær skora. Ódýr útskýring? Já kannski. En þannig er það samt. Eins góður og öflugur hann var í leiknum í 98% þá var hann jafn slakur í 2%. Það var nóg í þetta skiptið.

Sóknarleikurinn
Þarf ekki að taka nema markið sem dæmi. Þessi sending!? Þetta hlaup og þessi afgreiðsla!? Þetta var tiltölulega snemma leiks svo nú átti maður von á því að sjá góða sóknarhreyfingar aftur í leiknum, jafnvel nokkrum sinnum. Stelpurnar búnar að brjóta „markaísinn“, sjálfstraust og hugrekki myndi aukast og líklegt að fleiri svona sóknarhreyfingar og jafnvel færi litu dagsins ljós í leiknum.

Föst leikatriði
Kannski þreytt að tala um EM í fyrra, en samt. Við fengum talsvert af föstum leikatriðum í þessum leik. Það vita allir að þetta er þaulæft en það er ekkert sem segir að það gangi alltaf allt upp. En við bara verðum að fá mark eftir eitt af svona mörgum föstum leikatriðum í svona leik. Svona móti! Ég hef trú á að Freysi og co eyði miklum tíma í þessi atriði og uppskeran er rýr. Kannski er það lýsandi fyrir gengi liðsins í markaskorun þegar Hallbera og Agla fá báðar góðan tíma og pláss inní teig Sviss til að athafna sig og hengja boltann uppí þaknetið en hvorugt skotið var líklegt til að enda inni. Það færi, eða þau færi eru samt dæmi um færin sem fást eftir föst leikatriði hjá liðinu. Í fyrri hálfleik þegar Dagný og Gunnhildur Yrsa skalla rétt yfir hugsaði maður það sama. Þetta kemur eftir fast leikatriði í þessum leik.

Hvað veldur?
Örugglega margt og óþarfi að fara of djúpt. Stelpurnar voru einbeittar og vel undirbúnar. Varnartaktarnir og járnviljinn hjá Sif í restina sýnir líka hvað þetta skipti stelpurnar miklu máli. Markið okkar var verulega vel útfært og framkvæmt. Getum við þá talað um gæðaleysi í liðinu? Vantar reynslu? Örugglega en þó glitti í gæðin t.d. í markinu. Margar með mjög marga leiki á bakinu þó aðrar eigi færri. Eru ekki flest lið í þeirri stöðu?

Mikið hefur verið rætt um dómarann. Stelpurnar vita best að slök dómgæsla má ekki hafa áhrif á frammistöðu. En stundum getur það verið hluti af ástæðu sem truflar einbeitingu. Skipulagt og stöðugt væl, kvart og áreiti hins liðsins í dómurum leiksins getur haft áhrif á leikmenn. Jafnvel umfjöllun fyrir leik þar sem andstæðingurinn talar mikið í fjölmiðlum um hvað Ísland er gróft lið. Þetta síast inn og bæði við og dómararnir lenda í því að spyrja sig spurninga í miðjum leik. Það getur truflað einbeitingu hjá leikmönnum og stundum dómgreind dómara. Sérstaklega ef hann er í grunninn frekar undir meðallagi eins og virtist vera með dómara þessa leiks. Það voru ekki nema nokkrar mínútur búnar þegar leikmaður Sviss hendir sér niður undan nærveru Katrínar Ásbjörns, stekkur á fætur um leið og hleypur vælandi í dómarann. Nokkrum mínútum síðar brýtur Katrín í alvöru af sér og þá ætla þær af göflunum að ganga yfir síbrotamanninum frá Íslandi.

En mest getur þetta truflað einbeitingu okkar og þá kannski kemur það út í því (ásamt fleiru auðvitað) að maður gleymir sér stundarkorn á vitlausum tímapunkti. Á akkúrat þeim tímapunkti gerir maður mistök í varnarvinnunni eftir t.d. innkast. Eitthvað sem maður gerir alla jafnan aldrei. Lokar svoleiðis aðstæðum í 99% tilvika eins og stelpurnar gerðu.

Vantar „leikbreyti“ (game changer) í okkar lið? Ég held að við séum alltaf að nálgast það að eignast slíka leikmenn. Jafnvel komin nærri því en marga grunar. Sara Björk er orðin að alvöru leikmanni á heimsmælikvarða. Það eru fleiri á leiðinni þangað. Sumar jafnvel ansi nærri því. Það breytir því ekki að Ísland fer alltaf lengst á hugarfari, skipulagi og vinnusemi. Hjá slíkum liðum kosta mistökin mest. Þessi leikur er leiðinda dæmi um það. Föst leikatriði og pressan sem Ísland setti Sviss undir í lokin verða bara að gefa mörk á svona móti.

Ég á ekki von á því að Freysi breyti of miklu fyrir leikinn gegn Austurríki. Hann er á ákveðinni leið með liðið og undankeppni HM handan við hornið. Hann vill pottþétt sjá liðið spila við sterkt lið Austurríki án allrar pressu og sjá þá pottþétt meira af sóknarleik liðsins og bolta haldið meira innan liðs. Þó má alveg gera ráð fyrir að einhverjar fái mínútur sem þjálfarinn sér fyrir sér í stærri hlutverkum í náinni framtíð.

Fótbolti.net er með öflugt teymi í Hollandi og er hægt að fylgjast með öllu bak við tjöldin á Snapchat (Fotboltinet), á Instagram og öðrum samskiptamiðlum okkar.

Leikir Íslands á EM:
Ísland 0-1 Frakkland
Ísland 1-2 Sviss
Ísland 0-3 Austurríki
Athugasemdir
banner