mán 24. júlí 2017 19:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ítarlegt viðtal við Steven Lennon - „Hef fundið heimili mitt hérna"
Lennon elskar lífið á Íslandi.
Lennon elskar lífið á Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steven Lennon er leikmaður sem íslenskir fótboltaáhugamenn þekkja vel. Hann kom hingað til lands árið 2011 og spilaði þá fyrir Fram. Hann var hjá Fram í tvö ár og skoraði 17 mörk í 43 leikjum. Hann fór svo til Noregs og gekk í raðir Sandnes Ulf. Þar fann hann ekki alveg taktinn, en nú er hann lykilmaður í Íslandmeistaraliði FH.

Lennon er Skoti. Hann hóf feril sinn hjá Rangers og lék þar sinn fyrsta leik í desember 2006, þá 18 ára gamall. Hann kom inn á sem varamaður fyrir Spánverjann Nacho Novo þegar lítið var eftir af leik gegn Inverness Caledonian Thistle. Sá leikur tapaðist.

Lennon spilaði tvo leiki til viðbótar hjá Rangers og svo ekkert meir. Hann var lánaður til Patrick Thistle og Lincoln City og spilaði síðan fyrir Dundalk og Newport County áður en hann kom til Íslands.

Nú er Lennon 29 ára gamall og er búinn að finna hamingjuna í Hafnarfiðinum að spila fótbolta með FH. Lennon á íslenska kærustu og son sem er 19 mánaða. Hann nýtur lífsins í rólegu umhverfi á Íslandi og hugsar ekki um að fara aftur til Skotlands.

„Ég hef fundið heimili mitt hérna," segir Lennon í viðtali sem birtist hjá BBC í gær. „Ég á son og kærustu hér. Það er fullkomið. Menningin hérna er mjög róleg og afslöppuð."

„Fótboltinn er allt öðruvísi. Heima í Skotlandi er meira um langar sendingar. Hérna eru margir ungir strákar að spila í deildinni og þeir æfa tæknina mikið og spila góðan fótbolta."

„Stóru liðin í Skotlandi, Celtic, Rangers og Aberdeen eru betri en við, en við (FH) værum í miðjumoði í skosku úrvalsdeildinni."

Lennon viðurkennir að það hafi verið erfitt að yfirgefa Rangers. Mikil óvissa tók við í kjölfarið, en hann var búinn að vera hjá Rangers síðan hann var 10 ára gamall. Hann fann nýtt heimili í Skandinavíu.

„Ég var týndur í Bretlandi eftir að hafa verið hjá Rangers. Svo fór ég til Skandinavíu og þetta hefur verið eins og annað heimili fyrir mig. Ég fór til Íslands síðan til Noregs og aftur til Íslands. Ég tel að fótboltinn hérna henti mér betur," segir Lennon.

Í Skotlandi fara leikmenn oft út að skemmta sér eftir leiki. Hann vonast til að þetta sé að breytast. Hann segir að það sé ekki hægt á Íslandi, að leikmenn fari út að skemmta sér fyrir eða eftir leiki.

„Við spiluðum varaliðsleik á þriðjudegi og eftir það fór helmingurinn af liðinu í spilavítið til að spila póker. Ef ég var í aðalliðshópnum þá myndi það sama gerast á laugardegi."

„Vonandi er þetta að breytast. Akademíurnar eru betri í að fræða leikmenn núna en áður."

„Á Íslandi spilum við oftast á sunnudögum þannig að við höfum ekki tíma í að fara út á lífið á föstudögum eða laugardögum."

„Margir af ungu leikmönnunum taka líka menntun sína fram yfir fótboltann fram að vissum aldri, svo þeir eru ekkert rosalega spenntir fyrir því að fara út á lífið og drekka."

Smelltu hér til að lesa viðtalið í heild sinni. Þar ræðir Lennon m.a. um breytinguna, að fara frá Bretlandi til Ísland og þá ræðir hann einnig um Robbie Crawford, landa sinn, sem kom til FH fyrir sumarið.

FH mætir Maribor í Meistaradeildinni á miðvikudag, en Lennon stefnir á það að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Hann segir þó líklegra að liðið komist í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner