Zubimendi nálgast Arsenal - Man Utd gæti skipt Höjlund út fyrir Lookman - Tottenham vill Rashford
   lau 24. ágúst 2013 19:49
Anton Ingi Leifsson
Umfjöllun: Hilmar Geir hetja Hauka í mikilvægum sigri
Óli Jó gat leyft sér að fagna í dag.
Óli Jó gat leyft sér að fagna í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Haukar 2 - 1 Víkingur R.
0-1 Viktor Jónsson ('13)
1-1 Andri Steinn Birgisson ('35)
2-1 Hilmar Geir Eiðsson ('88)

Haukar fóru i annað sætið á markatölu eftir frábæran heimasigur gegn Víking nú fyrr í dag. Hilmar Geir Eiðsson tryggði sigurinn á 88. mínútu með marki eftir svokallað klafs í teig Víkinga. Svekkjandi fyrir gestina, en heimamenn fögnuðu eins og óðir menn.

Fyrsta markið kom á 13. mínútu. Eftir ágætis sókn fékk Dofri Snorrason boltann úti á vinstri væng, tók boltann með sér inn og snéri boltann frábærlega fyrir markið. Boltinn endaði beint á ,,pönnunni" á Viktori Jónssyni sem skallaði boltann smekklega í netið. Dekkningin hjá Haukum í þessu marki var algjört grín, en einnig hafði Dofri fáránlega mikinn tíma til að velja sér sendingarleið úti á vængnum.

Eftir markið sóttu Víkingar og sóttu. Sigmar í markinu hjá Haukum varði tvisvar til þrisvar virkilega vel og bjargaði því að Víkingarnir juku ekki forskotið. Viktor Jónsson var hættulegur í tvígang, en eins og fyrr segir gerði Sigmar virkilega vel í markinu.

Þá var komið að Haukum. Þeir sóttu í sig veðrið þar sem leið á og á 35. mínútu kom jöfnunarmarkið. Ásgeir Þór Ingólfsson átti í baráttu við þrjá leikmenn Víkings út við hornfána. Hann tók boltann af Tómasi Guðmundssyni og náði að snúa hann virkilega vel af sér, lagði boltann á Hilmar Geir sem var kominn í flott hlaup. Hann var með tvo Víkinga á eftir sér, Kjartan Dige Baldursson fór síðan í Hilmar Geir sem varð til þess að hann missti jafnvægið. Erlendur Eiríksson, frábær dómari leiksins, dæmdi víti. Andri Steinn Birgisson fór á punktinn, en lét Ingvar verja frá sér - hann hirti hins vegar frákastið og setti hann í netið.

Út hálfleikinn var síðan bara barningur, en meðal annars átti Magnús Páll skalla sem Dofri Snorrason bjargaði á línu. Staðan 1-1 í hálfleik.

Mikill barningur var úti á vellinum í síðari hálfleik. En á 76. mínútu byrjaði veislan á ný. Helgi Valur vann þá boltann af Robin Nijman, sendi flotta sendingu á Hilmar Geir sem skaut framhjá markinu á ótrúlegan hátt. Þarna átti Hilmar Geir að gera betur. Tveimur mínútum síðar átti Hafsteinn Briem skot í stöngina og stuttu síðar bjargaði Hjalti Már Hauksson á línu frá Hafsteini Briem.

Á 88. mínútu kom svo sigurmarkið. Helgi Valur sendi þá háa sendingu inn í teiginn og þar kom Hilmar Geir á siglingunni, eftir klafs náði hann að athafna sig og skoraði með vinstri fótarskoti, sem fór undir Ingvar Kale í markinu. Mikill fögnuður hjá Haukum, skiljanlega - en þetta voru gífurlega mikilvægir þrír punktar fyrir Haukana.

Hauka-liðið var einfaldlega betri aðilinn í þessum leik, fyrir utan stundafjórðung í kringum mark Víkings í fyrri hálfleik. Kristinn Jens Bjartmarsson hefur oft átt betri dag í vörn Víkings, en hann og Ívar Örn Jónsson áttu í vandræðum með spræka sóknarmenn Hauka.

Með sigrinum fóru Haukar í annað sætið á markatölu, með 34 stig, jafnmörg og Fjölnir sem er í 3. sæti, en tveimru stigum á eftir Grindavík sem sitja einir á toppnum. Víkingar eru hins vegar í fimmta sæti með 30 stig.
Athugasemdir
banner