Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 24. ágúst 2016 10:45
Arnar Daði Arnarsson
Best í 12. umferð: Ekki slys ef við verðum ekki Íslandsmeistarar
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir - Stjarnan
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
„Frammistaðan var ein sú besta hjá mér í sumar. Ég er þó fyrst og fremst ánægð með frammistöðu liðsins. Við vorum þolinmóðar og sköpuðum okkur nokkuð mörg færi," sagði Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir leikmaður Stjörnunnar.

Þórdís Hrönn er leikmaður 12. umferðar í Pepsi-deild kvenna en hún skoraði eitt og lagði upp annað í 3-0 sigri Stjörnunnar á Fylki.

Sterk liðsheild, samheldni og agi
„Þetta var eins og aðrir leikir í deildinni, erfiður leikur. Fylkir er baráttuglatt lið og leikurinn var nokkuð jafn í fyrri hálfleik. Þegar leið á leikinn fannst mér við ná ákveðnum tökum á honum og það náðum við að nýta okkur," sagði Þórdís sem er ánægð með sína frammistöðu í sumar.

„Það er fyrst og fremst samherjum mínum að þakka og líka að ég hef verið meiðslalaus á tímabilinu. Ég er afar ánægð með frammistöðu liðsins í sumar en sterk liðsheild, samheldni og agi hefur komið okkur þangað sem við erum," sagði miðjumaðurinn, en Stjarnan er á toppi deildarinnar.

Þórdís gekk í raðir Stjörnunnar eftir tvö ár hjá Ålta í næst efstu deild í Svíþjóð.

„Mér finnst deildin hér á Íslandi nokkuð sterkari en þegar ég lék hér síðast árið 2013. Mér finnst fleiri góð lið vera í deildinni, minna bil er á milli efstu og neðstu liða og fleiri góðir leikmenn eru að spila í deildinni."

„Það er ánægulegt að sjá að mjög góðir leikmenn, margir hverjir á besta aldri og fastamenn í íslenska A-landsliðinu, eru komnir heim úr atvinnumennsku sem hafa styrkt deildina gríðarlega," sagði Þórdís sem skoraði töluvert mikið af mörkum í Svíþjóð. Hún hefur verið í öðru hlutverki hjá Stjörnunni en markið hjá henni gegn Fylki var hennar annað mark í Pepsi-deildinni í sumar.

Markmiðið að fara aftur út
„Ég spilaði yfirleitt fremst á vellinum í Svíðþjóð. Hjá Stjörnunni hef ég til dæmis nokkrum sinnum spilað í bakverði eða á miðju. Ég tel reyndar að liðsframlag mitt hér á Íslandi sé ekki síðra en í Svíþjóð. Það er auðvitað það sem skiptir mestu máli," sagði Þórdís sem minnir síðan á það að tímabilið sé ekki enn búið og hún sé ekki hætt að skora.

Eins og fyrr segir er Stjarnan á toppi deildarinnar þegar sjö leikir eru eftir. Liðið hefur tveggja stiga forskot á Breiðablik og á einn leik til góða.

„Það verður ekki slys ef við endum ekki sem Íslandsmeistarar. Auðvitað förum við í alla leiki til þess að vinna þá en eins og deildin hefur spilast þá getur allt gerst. Þetta er allt undir okkur komið," sagði Þórdís sem stefnir á að fara aftur út í atvinnumennsku.

„Það er eitt af mínum markmiðum að fara aftur í atvinnumennsku. Af fenginni reynslu veit ég að ég stjórna því ekki alfarið sjálf og margt þarf að ganga upp ef það á að verða að veruleika. Fyrst og fremst stefni ég á að verða betri leikmaður," sagði leikmaður 12. umferðar í Pepsi-deild kvenna, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir að lokum.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Leikmaður 11. umferðar - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (Breiðablik)
Leikmaður 10. umferðar - Cloe Lacasse (ÍBV)
Leikmaður 9. umferðar - Sandra Sif Magnúsdóttir (Fylkir)
Leikmaður 8. umferðar - Arna Sif Ásgrímsdóttir (Valur)
Leikmaður 7. umferðar - Írunn Þorbjörg Aradóttir (Þór/KA)
Leikmaður 6. umferðar - Elín Metta Jensen (Valur)
Leikmaður 5. umferðar - Berglind Hrund Jónasdóttir (Stjarnan)
Leikmaður 4. umferðar - Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik)
Leikmaður 3. umferðar - Lauren Elizabeth Hughes (Selfoss)
Leikmaður 2. umferðar - Jeannette Williams (FH)
Leikmaður 1. umferðar - Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)
Athugasemdir
banner
banner
banner