Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   fös 24. október 2014 17:30
Magnús Már Einarsson
Gummi Ben: Barcelona vinnur ef Suarez byrjar
Real Madrid - Barcelona klukkan 16:00 á morgun
Guðmundur Benediktsson.
Guðmundur Benediktsson.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Messi og Ronaldo verða í eldlínunni á morgun.
Messi og Ronaldo verða í eldlínunni á morgun.
Mynd: Getty Images
,,Ég held að veisla sé eina orðið yfir þetta," segir Guðmundur Benediktsson um slag erkifjendanna í Real Madrid og Barcelona. Liðin mætast í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 16:00 á morgun en Guðmundur lýsir leiknum.

,,Það er búið að tala um það síðustu tíu ár að síðasti leikur verði ekki toppaður en þetta hefur verið með ólíkindum. Það hafa verið að minnsta kosti 3-4 mörk í leikjunum síðustu tíu ár og þetta eru tvö stærstu knattspyrnufélög heims."

Breytir miklu ef Suarez byrjar
Luis Suarez gæti spilað sinn fyrsta mótsleik með Barcelona á morgun en hann er búinn að afplána fjögurra mánaða bannið sem hann fékk fyrir að bíta Giorgio Chiellini á HM í sumar.

,,Ég er voða hræddur um að hann byrji ekki en ég vona að Enrique þori að henda honum inn. Það mun breyta mikið fyrir Barcelona ef hann er inni. Það hefur aðeins loðað við Neymar og Messi stundum að hann er ekki tilbúinn að fara í þessa pressu sem Barcelona er þekkt fyrir þegar liðið vinnur boltann aftur. Það þarf ekkert að klípa í rassinn á Suarez. Hann er tilbúinn að hlaupa fyrir allan peninginn."

,,Ég held að það breyti líka miklu fyrir Messi ef Barcelona fær eina níu sem er tilbúin að vera upp á topp og heldur varnarmönnum Real Madrid uppteknum. Þá eykst plássið fyrir Messi og það væri geggjað fyrir hann að fá pláss í holunni. Það mun bara hjálpa Barcelona."


James verður bara betri
James Rodriguez var skærasta stjarnan sem Real Madrid fékk í sínar raðir í sumar en hann sló í gegn með landsliði Kolumbíu á HM. Ennþá meira mun mæða á honum á morgun þar sem Gareth Bale verður ekki með.

,,James hefur staðið sig mjög vel. Það hefur örugglega ekki verið auðvelt fyrir hann að koma inn í þetta vopnabúr sem er til staðar. Isco var líka frábær á miðvikudaginn og þetta eru alvöru gæar."

,,James verður betri og betri með hverjum leiknum. Hann er aðeins öðruvísi því hann er ekki með þennan hraða sem Bale og Ronaldo hafa. Hann getur búið til hluti eins og í fyrsta markinu gegn Liverpool þar sem hann átti magnaða sendingu. Hann er góður á boltann og duglegur. Hann er að reyna að verjast og gerir það vel. Ég er mjög hrifinn af þeim strák."


Gummi reiknar með markaleik eins og svo oft áður þegar þessi lið eigast við.

,,Real Madrid er á heimavelli en Barcelona hefur gengið lygilega vel á Santiago Bernabeu undanfarin ár. Ég hallast aðeins í átt að Barcelona. Ef Luis Enrique tekur þá djörfu ákvörðun að henda Luis Suarez beint inn í liðið þá vinnur Barcelona þennan leik. Ef ekki þá fáum við marka jafntefli. Það verða allavega sex mörk," sagði Gummi hress að lokum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner