banner
   mán 24. október 2016 11:19
Elvar Geir Magnússon
Rashford ekki gulldrengur ársins
Renato Sanches er besti ungi leikmaður Evrópu.
Renato Sanches er besti ungi leikmaður Evrópu.
Mynd: Getty Images
Renato Sanches, miðjumaður Bayern München og portúgalska landsliðsins, hefur verið valinn besti ungi leikmaður Evrópu 2016. Fær hann því titilinn „Gulldrengur Evrópu" en Anthony Martial fékk þessi verðlaun í fyrra.

Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, hafnaði í öðru sæti.

Það er ítalska dagblaðið Tuttosport sem sér um kjörið en leikmenn sem eru yngri en 21 árs eru löglegir.

Sanches er 19 ára gamall og gekk í raðir Bæjara í sumar frá Benfica á 30 milljónir evra. Hann hjálpaði Portúgal að verða Evrópumeistari í sumar og fetar í fótspor leikmanna eins og Wayne Rooney, Mario Balotelli, og Paul Pogba sem áður hafa verið gulldrengir.

Þá er Sanches fyrsti portúgalski leikmaðurinn til að hljóta þessi verðlaun en Cristiano Ronaldo varð á sínum tíma í öðru sæti á eftir Rooney.

„Ég er mjög stoltur enda stór verðlaun. En ég er jarðbundinn. Ég á eftir að læra mikið frá frábærum liðsfélögum mínum, mönnum eins og Vidal, Xabi, Tiago og Kimmich," segir Sanches.

Kingsley Coman hafnaði í þriðja sæti en meðal annarra leikmanna sem voru tilnefndir voru Gianluigi Donnarumma, Alex Iwobi og Dele Alli.
Athugasemdir
banner
banner
banner