Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 24. nóvember 2014 15:15
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Adam Örn: Bíð eftir tækifærinu með U21
Adam hefur spilað fjölmarga leiki fyrir U17 og U19 landsliðinu.
Adam hefur spilað fjölmarga leiki fyrir U17 og U19 landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í búningi Nordsjælland.
Í búningi Nordsjælland.
Mynd: Nordsjælland
Í leik í Egilshöllinni.
Í leik í Egilshöllinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Örn Arnarson spilaði vel í sínum fyrsta leik fyrir aðallið danska úrvalsdeildarliðsins Nordsjælland í gær. Þessi 19 ára leikmaður spilaði allan leikinn í hægri bakverðinum þegar Nordsjælland tapaði með eins marks mun gegn OB.

„Miðað við fyrsta leik fannst mér þetta ganga mjög vel hjá mér. Þetta er allt annað dæmi en að spila með varaliðinu. Þetta var erfitt og miklu meira um hlaup en vanalega og mennirnir sem ég mætti líkamlega sterkari. Þetta var mun erfiðara en aðrir leikir sem ég hef spilað," segir Adam sem fékk lof fyrir frammistöðuna.

„Ég var búinn að vita það í smá tíma að það yrðu nokkrir í banni í þessum leik, þar á meðal hægri bakvörðurinn sem spilar vanalega. Þá var bara opið tækifæri fyrir mig að koma inn í liðið. Ég gerði mitt besta á æfingum til að fá tækifærið og ég fékk það."

„Þessi leikur gat dottið báðum megin fannst mér. Bæði liðin fengu góð færi en munurinn var sá að þeir nýttu eitt þeirra. Þetta var örugglega skemmtilegur leikur á að horfa, endanna á milli."

Ákveðnir í að snúa þessu við
Landsliðsbakvörðurinn Ari Freyr Skúlason lék allan leikinn fyrir OB en hann og Adam mættust nokkrum sinnum í leiknum.

„Ari átti bara góðan leik, var flottur með fyrirliðabandið. Við hittumst nokkrum sinnum í leiknum enda hann vinstra megin og ég hægra megin. Hann braut einu sinni af mér þarna í skallaeinvígi," segir Adam.

Eftir góða byrjun Nordsjælland hefur hallað undan fæti og liðið er án sigurs í síðustu sex deildarleikjum. Liðið situr nú í sjötta sæti af tólf liðum deildarinnar.

„Ég veit svosem ekki hver er ástæðan fyrir því. Við fórum í gegnum erfitt prógramm og spiluðum gegn öllum toppliðunum en það er náttúrulega engin afsökun. Við ættum að vera með fleiri stig og erum að vinna í því eins og við getum að snúa þessu við. Ætlunin er að gera það strax í næsta leik gegn Bröndby, við stefnum á að ná í þrjú stig þar."

Þægilegt að hafa þjálfara sem treystir mér
Adam er uppalinn hjá Breiðabliki en var í herbúðum NEC Nijmegen í Hollandi áður en Ólafur Kristjánsson, þjálfari Nordsjælland, fékk hann til sín. Adam segir það vissulega sérstakt að vera með íslenskan þjálfara hjá erlendu félagi.

„Ég viðurkenni það alveg að þetta var spes í byrjun. Ég var búinn að vera með Óla hjá Breiðabliki og síðan að vera með hann hjá Nordsjælland er sérstakt. En það er mjög þægilegt fyrir mig sem ungan leikmann að hafa þjálfara sem ég þekki og treystir mér."

„Maður er í þessu til að spila leiki og spila á eins háum styrkleika og maður getur. Ég ætla að reyna að fá fleiri leiki í aðalliðinu og leggja mig hart fram á æfingum og bíða eftir nsæta tækifæri."

Auðveldast að komast í bakvarðastöður Íslands
Adam er bakvörður eins og áður hefur komið fram en landsliðsþjálfarar Íslands hafa talað um að stysta leiðin inn í liðið sé í gegnum vörnina. Eins og lesendur vita hefur Ísland verið að spila leikmönnum út úr stöðu í bakvörðum.

„Það hefur ekki verið mikið um bakverði í landsliðinu, sérstaklega ekki þarna hægra megin. Elmar (Bjarnason) hefur verið að leysa þá stöðu vel reyndar en hann er að spila kant hjá Randers. Það er alveg rétt að það ætti að vera auðveldast að komast í bakvarðastöðurnar. Fyrsta skref hjá mér er að komast í U21-liðið, þar hafa miðverðir verið notaðir í hægri bakverðinum. Maður bíður eftir tækifæri þar," segir Adam.

Mikið tempó í danska boltanum
Adam segir að gæðin í danska boltanum hafi komið sér á óvart og að deildin sé mun sterkari en margir Íslendingar geri sér grein fyrir. Hann segir að æfingaaðstaða Nordsjælland og Nijmegen sé svipuð.

„Aðal munurinn er að í Hollandi er gras og hérna spila þeir á gervigrasi. Tempóið hjá þessum liðum er svipað og liðin spila svipaðan fótbolta. Í Hollandi er boltanum náttúrulega spilað niðri en Nordsjælland vill líka spila fótbolta," segir Adam.

„Ég var búinn að sjá hvernig þetta er í Hollandi og var ekki búinn að sjá hvernig þetta væri í Danmörku, Það kom mér alveg á óvart hversu hátt „levelið" er hérna. Það er meira tempó held ég en menn gera sér grein fyrir."
Athugasemdir
banner
banner
banner