banner
   mán 24. nóvember 2014 14:14
Elvar Geir Magnússon
Leikmannamál
Formaður Víkings: Tjái mig ekki um launamál í fjölmiðlum
Ingvar Kale hefur yfirgefið Víking.
Ingvar Kale hefur yfirgefið Víking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ummæli Ingvars Kale í viðtali við Fótbolta.net í dag hafa vakið talsverða athygli.

Þar segist hann ekki hafa náð samkomulagi við Víking um nýjan samning þar sem félagið hafi aðeins boðið honum samning þar sem um 30% launalækkun væri að ræða.

Ingvar átti gott tímabil með Víkingum sem náðu Evrópusæti og því kemur þetta á óvart. Friðrik Magnússon, formaður knattspyrnudeildar Víkings, vildi ekkert tjá sig um málið þegar Fótbolti.net bað hann um það áðan.

„Ég tjái mig ekki um launamál og samningamál einhverra leikmanna í fjölmiðlum," segir Friðrik. „Þjálfararnir velja hverja þeir vilja hafa í liðinu og svo semur stjórnin um laun. Það er ekkert meira um það að segja."

Fjölmiðlar hafa sagt að danski markvörðurinn Thomas Nielsen muni líklega ganga í raðir Víkinga. Þessi 22 ára leikmaður hefur æft með Víkingi, hann er upp­al­inn í Ála­borg en hef­ur leikið með Lind­holm und­an­farið í dönsku D-deild­inni.

Friðrik segir full sterkt til orða tekið í fjölmiðlum varðandi hann, ekkert sé frágengið. „Hann er einn af þeim kostum sem verða skoðaðir."

Óli Þórðar: Erum búnir að finna annan markmann
Ólafur Þórðarson, annar þjálfara Víkings, hafði þetta að segja um málið: „Það bara náðust ekki samningar og við því er ekkert að gera. Ég hefði viljað halda Ingvari á ákveðnum forsendum en við höfum ákveðið „budget" til að vinna með og við verðum að vinna með því."

„Við erum búnir að finna annan markvörð og vonandi ganga samningar," segir Ólafur um Nielsen.
Athugasemdir
banner
banner
banner